Strætisvagnabílstjóri á batavegi

Strætisvagnabílstjórinn sem slasaðist alvarlega í umferðarslysi í Reykjavík í gærmorgun, er á batavegi. Hann er enn þá á gjörgæsludeild en búist er við að hann verði fluttur á aðra deild síðar í dag. Strætisvagninn lenti í árekstri við vörubíl á mótum Laugavegar og Kringlumýrarbrautar. Strætisvagninum var ekið vestur Suðurlandsbraut en vörubílnum norður Kringlumýrarbraut. Samkvæmt vitnum fór vörubíllinn yfir á rauðu ljósi og í Morgunblaðinu segir að hann hafi verið á 80 kílómetra hraða samkvæmt ökurita bílsins. Sex farþegar úr strætisvagninum voru einnig fluttir á slysadeild, en þeir slösuðust ekki alvarlega.