Lögregluumdæmum landsins fækkar um ellefu, úr 26 í fimmtán samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar á vegum dómsmálaráðherra sem hefur nú samþykkt tillögur nefndarinnar.
Lögregluembættin í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði verða sameinuð í eitt embætti. Lögregluembættin í Búðardal og á Hólmavík verða sameinuð embættinu í Borgarnesi. Á Vestfjörðum sameinast löggæslan í Bolungarvík og á Patreksfirði lögregluembættinu á Ísafirði. Lögreglan á Ólafsfirði og Siglufirði verður hluti af embættinu á Akureyri. Lögreglan á Vík í Mýrdal verður sameinuð lögreglunni á Hvolsvelli og lögregluembættin í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli verða eitt.