Skoðun

Velgjörðarmenn og snobb

Komiði sæl.

Ég ætla senn að boða til blaðamannafundar. Ég er að hugsa um að gefa Mæðrastyrksnefnd svona 10 þúsund kall vegna fátækra barna á Íslandi og bæta við nokkrum þúsund köllum til, segjum, Konukots. Og kaupa áfram þessa góðgerðahappadrættismiða sem ég kaupi alltaf.

Ég krefst þess að allir fjölmiðlar sendi sitt besta fólk á blaðamannafundinn, taki fallegar myndir af mér og viðtöl. Ég er hlutfallslega að gefa mun stærri gjöf en þessir billjónerar sem fá athygli fyrir gjafir sem eru brota-brota-brot af þeirra umfangi. ÉG ER AÐ GEFA MEIRA EN ÞEIR og krefst þess að fá mynd og vera kallaður velgjörðarmaður og svoleiðis. Ég meira að segja ætla að ganga enn lengra en þetta í góðmennskunni: Ég ætla ekki að færa mínar gjafir sem kostnað á móti sköttum í skattframtalinu. Gjöfin mín kemur ekki til baka í gegnum skattinn. Ólíkt og með góðu billjónerana léttist budda mín - og bros mitt verður ekta en ekki uppsett.

Þeir fjölmiðlar sem senda ekki fulla hersveit á blaðamannafundinn verða með réttu sakaðir um snobb - að horfa í krónutöluna frekar en gjörninginn. Segja frá fína fólkinu frekar en því þegar venjulegt fólk gerir sitt besta með það litla sem það hefur.

Á blaðamannafundinum ætla ég og að varpa þeirri spurningu fram, hvort ekki sé upplagt að skattleggja stórfyrirtæki til hagsbóta fyrir fátæka, líkt og hér var gert í gamla daga. Muniði hvað Þorvaldur í Síld og Fisk var stoltur af því að vera skattakóngur? Er það orðið mannfjandsamlegt að beita jöfnunaraðgerðum eins og að skattleggja hina ríku til að bæta hag hinna fátæku? Er nú hinum fátæku ætlað það hlutskipti að brosa í genum tárin þegar það þiggur góðgjörðir beint úr höndunum á hinum ríku?

Á blaðamannafundinum ætla ég líka að varpa þeirri spurningu fram hvort sú viðmiðun eigi ekki lengur við að gefa gjafir og styrki án þess að hreykja sér á hæsta steini. Af hverju gefa þessir billjónerar fátækum ekki bara pening og þegja um það, eins og besta fólkið gerir?

Þetta verður flottur blaðamannafundur. Ég er að vona að forsetinn og Björgólfur komi. Og að Jóhannes í Bónus spili á Grafarvogskirkju-orgel. Ætla ekki allir að mæta? Eða verð ég að kaupa auglýsingar fyrst?



Friðrik Þór Guðmundsson



Skoðun

Sjá meira


×