Menning

Með lag á heilanum

Vísindamenn eru alltaf að reyna að finna út hvað það er sem gerir það að verkum að fólk hneigist meira að sumum lögum en öðrum og af hverju sum lög eða lagabútar kalla á næstum áráttukenndar endurtekningar, löngu eftir að þau hætta að hljóma. Nokkrir doktorsnemar við Dartmouth-háskóla í Bandaríkjunum gerðu rannsókn á því hvar í heilanum lög hljóma og hvar við geymum þau svo þegar við heyrum þau ekki lengur. Rannsóknin var gerð þannig að sjálfboðaliðar voru látnir hlusta á lög sem var lækkað niður í öðru hvoru þannig að þeir heyrðu bara hluta af lögunum. Þeir voru einnig tengdir við heilaskanna sem fylgdist með starfsemi heilans á meðan á hlustuninni stóð, einkum í þeirri heilastöð sem tengist eyrunum. Lögin voru ýmist þekkt eða óþekkt og var munur á heilastarfseminni eftir því hvort áheyrendur þekktu lögin eða ekki. Þegar lögin voru þekkt var starfsemi í hlustunarstöðinni óbreytt hvort sem lögin hljómuðu eða ekki og sjálfboðaliðarnir sögðust heyra lögin í huganum þótt ekkert heyrðist af bandinu. Fólk hélt með öðrum orðum áfram að syngja kunnuglegu lögin í huganum þó þau væru hætt að hljóma í eyrunum. Því þekktari sem lögin voru, því líklegra var fólk til að halda áfram að "heyra" þau þótt þau heyrðust ekki. Það virtist líka skipta máli hvort lagið var klárað. Lög sem ekki voru spiluð til enda voru líklegri til að halda áfram að hljóma í huga sjálfboðaliðanna. Einnig var misjafnt hvaða hlutar hlustunarstöðvarinnar voru virkir eftir því hvort lagið hafði texta eða ekki og málstöðvar heilans sýndu líka virkni þegar þögn var í lögum með texta. Minningar tengdar lögunum gerðu það síðan að verkum að enn fleiri og ólíkari heilastöðvar sýndu virkni. Stundum hefur verið talað um að fólk fái lög "á heilann" og sú virðist vera raunin en spurningunni um af hverju sum lög eru ágengari en önnur hefur enn ekki verið svarað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×