Innlent

Nautgriparækt rekin með bullandi tapi

Nautgriparæktendur segjast þurfa sömu styrki og mjólkurbændur til að geta keppt við þá um sölu nautakjöts.
Nautgriparæktendur segjast þurfa sömu styrki og mjólkurbændur til að geta keppt við þá um sölu nautakjöts. MYND/Óli Kr.

Nautakjötsframleiðendur hafa litlar eða engar tekjur haft af búum sínum og halda þetta ekki út miklu lengur nema samkeppnisstaða þeirra verði bætt. Landbúnaðarráðherra segir það koma til greina að því gefnu að forystumenn bænda séu hlynntir styrkjum til þeirra.

Beingreiðslur úr ríkissjóði til mjólkurbænda mismuna nautakjötsframleiðendum og brjóta því í bága við samkeppnislög segir í áliti Samkeppniseftirlitsins eftir athugun á samkeppnisstöðu nautakjötsframleiðenda. Þrír bændur sem rækta nautgripi til slátrunar töldu beingreiðslur til mjólkurbænda vera niðurgreiðslu á hvort tveggja mjólkurframleiðslu þeirra og nautakjötsframleiðslu. Þeir kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins sem komst að sömu niðurstöðu og mælist til þess við landbúnaðarráðherra að hann jafni samkeppnisstöðuna fyrir fyrsta júlí næstkomandi eða útskýri ella hvers vegna hann geri það ekki.

Jón Gíslason er einn þremenninganna sem leituðu á náðir Samkeppniseftirlitsins. Hann fagnar niðurstöðunni og vonast til að sjá breytingar á næstunni enda hafi misjöfn samkeppnisstaða gert nautgripabændum erfitt fyrir. "Afkoman hefur verið mjög slæm. Þetta hefur ekki skilað neinum tekjum til handa fólks sem vinnur við þetta undanfarin fimm ár. Þetta hefur verið rekið með tapi, bullandi tapi undanfarin misseri." Hann segir nautgripabændur ekki halda út mikið lengur. "Við höfum verið að þrauka í krafti þess að menn sjái ljósið einhvern tíma og það virðist vera að Guðni sjái það kannski um jólin."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×