Innlent

Reglur tilbúnar fyrir áramót

Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir stærri fjarskiptafyrirtækið meðvituð um skyldur sínar varðandi öryggi fjarskipta.
Hrafnkell V. Gíslason forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir stærri fjarskiptafyrirtækið meðvituð um skyldur sínar varðandi öryggi fjarskipta.

Hrafnkell V. Gísla­son, for­stjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir unnið að því að fara yfir lagaákvæði sem lúta að vernd fjarskip­ta og starfsháttum fjar­skipta­fyrirtækja með það fyrir aug­um að búa hugsanlega til vinnu­reglur þar að lútandi. Þetta er gert í kjölfar þess að Sturla Böðvars­son samgöngu­ráðherra fól stofnun­inni að bregð­ast sérstaklega við vegna frétta í Frétta­blaðinu um upphaf Baugs­málsins, en þær byggðu á skjölum sem blaðið komst yfir.

Hrafnkell áréttar að hugsan­legum leka á töluvpósti Jónínu Bene­diktsdóttur hafi ekki verið vísað til stofnunarinnar.

"Og mér vitanlega hefur hún ekki kosið að kæra ólöglegan aðgang að tölvupósti sínum til yfirvalda, hvorki til okkar né lögreglu," segir hann.

Í vinnu stofnunarinnar nú er aðallega horft til 47. greinar fjarskiptalaga um öryggi og þagn­ar­skyldu. Þar segir að fjar­skipta­fyrirtæki skuli gera viðeigandi ráð­stafanir til að tryggja öryggi fjar­skipt­anna.

"Og við vinnum að því að setja upp annað hvort reglur eða leið­beiningar um með hvaða hætti við munum framfylgja þessu í fram­tíðinni."

Hrafnkell vonast til að þessari vinnu ljúki fyrir ára­mót, en fyrirtækjum verð­ur gef­inn kostur á að koma að athuga­semd­um áður en nýjar regl­ur taka gildi. Í starfi nefndar sem sam­göngu­ráð­herra skipaði í maí til að fara yfir öryggi fjarskiptakerfa segir Hrafn­kell að fram hafi komið í heim­sóknum til fyrirtækja að þau séu mjög meðvituð um mikilvægi öryggismála og vinni öll að því kerfisbundið að viðhalda og efla öryggi. Hann kveðst ekki muna til þess að upp hafi komið mál þar sem starfsmenn fyrirtækja lækju upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×