Viðskipti innlent

Mikill áhugi á bréfum FL Group

Hannes Smárason Forsvarsmenn FL Group eru í skýjunum eftir að ljóst var að fagfjárfestar óskuðu eftir bréfum fyrir ríflega fimmtán milljörðum meira en í boði var í hlutafjárútboði félagsins.
Hannes Smárason Forsvarsmenn FL Group eru í skýjunum eftir að ljóst var að fagfjárfestar óskuðu eftir bréfum fyrir ríflega fimmtán milljörðum meira en í boði var í hlutafjárútboði félagsins.

Fagfjárfestar sýndu nýju hlutafé í FL Group mikinn áhuga. Allir helstu lífeyrissjóðir og fjárfestingasjóðir tóku þátt í útboðinu og skráðu sig alls fyrir 33,6 milljörðum króna. Hannes Smárason segir þetta mikla traustsyfirlýsingu til handa stjórnendum félagsins, en eftir útboðið verður eigið fé FL Group 66 milljarðar króna sem geri það að stærsta fjárfestingarfélagi landsins.

"Niðurstaðan er afar góð og breiður hópur sem kemur að þessu útboði," sagði Hannes í gærkvöld þegar niðurstaðan var ljós. Stærstu hluthafar félagsins keyptu nýja hluti fyrir 28 milljarða króna. KB banki og Landsbankinn höfðu fyrir útboðið tryggt kaup á átta milljörðum, en í ljósi eftirspurnar var sá hlutur minnkaður og fengu fagfjárfestar tæpum fimm milljörðum meira en til stóð í upphafi eða 12,9 milljarða. Nýjum hluthöfum var boðið að greiða fyrir nýtt hlutafé með bréfum í stærstu skráðu félögum í Kauphöll Íslands.

Niðurstaða af því varð sú að greitt verður fyrir 44 prósent nýs hlutafjár með hlutabréfum, en 56 prósent verða greidd með reiðufé. FL Group samdi um kaup á danska flugfélaginu Sterling fyrir skemmstu. Félagið á auk þess ríflega sextán prósenta hlut í lággjaldaflugfélaginu easyJet. FL Group hefur boðað að félagið hyggist leggja áherslu á fjárfestingar í Evrópu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×