Innlent

Vörðust ásökunum um samráðið

Fulltrúar fjögurra olíufélaga vörðust ásökunum um ólögmætt samráð á fundi með áfrýjunarnefnd samkeppnismála í dag. Fulltrúar Samkeppnisstofnunar skýrðu sitt mál einnig. Búast má við niðurstöðu nefndarinnar í mánuðinum. Þar sem áfrýjunarnefnd hefur ekki fasta starfsaðstöðu var fundurinn haldinn á Hótel Sögu. Hann hófst klukkan 9 í morgun og stendur enn, eftir því sem næst verður komist. Lögmenn eða fulltrúar olíufélaganna komu allir til fundarins á sama tíma og fulltrúar Samkeppnisstofnunar einnig. Hvert olíufélag fékk tvær klukkustundir til að skýra mál sitt sem og Samkeppnisstofnun. Olíufélögin áfrýjuðu úrskurði Samkeppnisstofnunar til áfrýjunarnefndarinar í nóvemberlok og hefur áfrýjunarnefndin sex vikur til að komast að niðurstöðu, frá þeim tíma talið. Ljóst er að það næst ekki heldur verði nefndin að fá aðeins lengri tíma. Að sögn formanns hennar er engu að síður stefnt að því að skila niðurstöu í þessum mánuði. Alls voru Olís, Skeljungur, Essó og Orkan sektuð um 2,6 milljarða króna samanlagt en samkvæmt Samkeppnisstofnun er talið að meint samráð félaganna hafi kostað samfélagið um 40 milljarða króna. Ákvörðun áfrýjunarnefndar er endanlegur úrskurður samkeppnisyfirvalda en ef félögin verða ósátt við niðurstöðuna geta þau farið með málið fyrir dómstóla. Eftir því sem fréttastofan kemst næst frestar það þó ekki innheimtu sektarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×