Innlent

Kostnaðarauki þar sem síst skyldi

Kostnaður vegna húshitunar með rafmagni gæti aukist um 30 þúsund krónur á ári í þéttbýli og upp undir 40 þúsund krónur í dreifbýli eftir gildistöku nýrra raforkulaga, að mati Tryggva Þórs Haraldssonar, forstjóra RARIK. Þá telja fiskeldisstöðvar að aukinn rafmagnskostnaður gæti numið tugum prósenta. Elvar Árni Lund, sveitarstjóri í Öxarfjarðarhreppi, segist hafa þungar áhyggjur af því hvaða áhrif breytt rekstrarskilyrði Silfurstjörnunnar gætu haft á sveitarfélagið. "Þetta er stór vinnustaður og snertir okkur mikið," sagði hann. Þá telur Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Raufarhöfn, að ný raforkulög kunni að setja verulegt strik í rekstur sveitarfélaga þar sem ekki nýtur hitaveitu. "Mér sýnist hægt að búast við um 25 prósenta hækkun á rafmagnskostnaði þar sem engrar niðurgreiðslu nýtur," sagði hún en áréttaði að enn væri verið að skoða málið og útreikningar ekki endanlegir. "Þessir rekstarörðugleikar virðast hins vegar engan endi ætla að taka," segir hún. Elvar Árni segir áhrif nýju raforkulaganna hafa verið rædd á fundi með þingmönnum kjördæmisins í haust, en þá hafi hækkunin verið fyrirséð, sem og áhrif á afkomu fiskeldisins. "En það hefur ekkert svar borist frá þeim ennþá," sagði hann og taldi kostnaðarauka vegna nýrra raforkulaga koma niður þar sem síst skyldi, á svæðum sem ekki hefðu notið þess að vera með hitaveitu. "En svo felast vonandi í þessu tækifæri líka," bætti hann við og sagði vonir standa til að virkja mætti lághitasvæði í sveitinni með sömu tækni og beitt hafi verið hjá Orkuveitu Húsavíkur. "Þannig gætum við selt rafmagn inn á Landsnetið." Forstjóri RARIK segir aukningu húshitunarkostnaðar ráðast af því að ekki megi lengur færa á milli kostnað eftir notkun rafmagnsins og gefa þannig afslátt til húshitunar. "Ríkið hefur hins vegar greitt niður rafhitun og eru til þess um 900 milljónir á fjárlögum," segir Tryggvi, en Orkustofnun hefur umsjón með greiðslunum. "Hækkunin er nokkuð mikil, en á móti kemur lækkun hjá almennum notendum og atvinnulífinu," sagði hann og benti á að stjórnvöld gætu einnig ákveðið auknar niðurgreiðslur og jafnað þannig kostnað. "En það er nokkuð sem við ráðum ekki við."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×