Innlent

Látinna minnst í gær

Guðsþjónusta var haldin í íþróttahúsinu í Súðavík í gær til minningar um þá sem létust í snjóflóðinu fyrir tíu árum. Fjölmenni var við athöfnina og þjónuðu séra Magnús Erlingsson og séra Valdimar Hreiðarsson fyrir altari. "Þetta var hátíðleg stund þar sem við minntumst þeirra sem dóu og báðum fyrir okkur sjálfum, aðstandendum og fyrir framtíðnni," sagði Magnús að athöfn lokinni. Tár mátti sjá á hvörmum sumra gestanna. Að sögn Magnúsar treystu sér ekki allir til að mæta til samkomunnar, minningin um flóðin var of þungbær. Í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ var haldin minningar- og bænastund í gærkvöldi fyrir brottflutta Vestfirðinga og aðra sem vildu minnast þeirra sem fórust fyrir tíu árum. Séra Jakob Ágúst Hjálmarsson og séra Karl V. Matthíasson leiddu samkomuna.
Lágafellskirkja



Fleiri fréttir

Sjá meira


×