Menning

Hagar seglum eftir vindi

"Á vélbát tekur maður ákveðna stefnu og keyrir bara þangað en á skútu er það allt öðruvísi því ferðin fer alveg eftir vindinum, og maður hagar seglum eftir vindi," segir Benedikt H. Alfonsson, skólastjóri Siglingaskólans, sem kennir nemendum sínum skútusiglingar á sumrin en býður upp á bóklega kennslu á veturna. "Maður byrjar á smáskipaprófi eða pungaprófi eins og það er kalllað, næst bætir maður við sig siglingum og þá getur maður siglt með ströndinni eða ekki lengra en 50 sjómílur frá landi," segir Benedikt, en því næst er hægt að bæta við sig hafssiglingum sem þýðir 150 sjómílur frá landi. "Að lokum eru það úthafssiglingar, og þá er það bara alla leiðina yfir hafið," segir Benedikt en við úthafssiglingar þarf fólk að geta bjargað sér við hvaða aðstæður sem er. Meðal efnis sem kennt er fyrir úthafssiglingar eru veðurfræði og stjarnveðurfræði auk þess sem Benedikt kennir fóki að nota sextant. "Í úthafssiglingum verður maður að læra að sigla eftir stjörnunum, því þó að maður sé með góð tæki getur allt klikkað," segir Benedikt en allt námsefnið miðar hann við staðal breska siglingasambandsins og öðlast því nemendur rétt til siglinga um allan heim. "Nú er einnig komið til sögunnar í Evrópu alþjóðaskírteini fyrir strandsiglingar sem við hjá Siglingaskólanum getum gefið út eftir að fólk hefur sótt tiltekin námskeið og staðist þau," segir Benedikt en þannig getur fólk sem sækir Siglingaskólann farið nánast hvert á land sem er og siglt þaðan um ókunnar strendur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×