Innlent

Leyniþjónusta á Íslandi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra staðfesti á Alþingi í dag að öryggislögreglu- og leyniþjónustustarfsemi færi fram á vegum Ríkislögreglustjóra og sagði að umfang hennar hefði aukist í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum þann 11. september 2001. Helgi Hjörvar bar fram fyrirspurn í fjórum liðum um málið og spurði ráðherra meðal annars hvort hann teldi að lagaheimildir skorti fyrir þeirri öryggislögreglu- og leyniþjónustustarfsemi sem væri á vegum Ríkislögreglustjóra. Athygli vakti að dómsmálaráðherra gerði ekki athugasemd við þá forsendu sem fyrirspyrjandi gaf sér í fyrirspurninni, þ.e. að slík starfsemi væri þegar hafin hér á landi. Hann sagði að samkvæmt fimmtu grein lögreglulaga væri hlutverk Ríkislögreglustjóra m.a. að starfrækja lögreglurrannsóknardeild sem rannsakaði landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess. Því var velt upp hvort sérstaka löggjöf þyrfti um starfsemina. Björn svaraði því á þá leið að á það hefði verið bent að skortur á slíkri löggjöf gæti vakið upp spurningar um heimildir lögreglu til aðgerða og eftirgrennslan með málum af þessum toga og nauðsynlegt væri að eyða slíkri óvissu með skýrri löggjöf bæði fyrir þá sem störfuðu á grundvelli hennar og almenning í landinu. Björn sagði að ekki lægi fyrir nein ákvörðun um það hvernig úr þessu yrði bætt. Hann taldi þó ekki brýna þörf á að setja þessa starfsemi undir hatt sérstakrar öryggislögreglu. Og ráðherrann var spurður um umfang starfseminnar. Hann sagði umfangið hafa verið óbreytt undanfarin ár en það hefði aukist nokkuð eins og kunnugt væri í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001. Engin áform væru hins vegar um að auka umsvif starfseminnar. Hann var spurður nánar um umfang hennar en svaraði ekki. Helgi Hjörvar, fyrirspyrjandi í málinu, segir starfsemi öryggislögreglu og leyniþjónustu hafi legið í þagnargildi og mikil leynd hafi hvílt yfir henni. Hún hafi þó kannski heldur ekki verið umfangsmikil, að minnsta kosti voni hann það. En vegna þess að hún snerti friðhelgi einkalífsins sé mjög mikilvægt að hún sé eins mikið uppi á borðinu og hægt sé og að treysta megi því að ekki sé verið að njósna um almenning nema það séu fullkomlega gildar ástæður fyrir því. Passað verði að menn fari ekki út fyrir eðlileg mörk í leyniþjónustustarfsemi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×