Erlent

Hryðjuverkaárás óumflýjanleg

Hryðjuverkaárás á Bandaríkin er óumflýjanleg. Þetta segir Tom Ridge, fráfarandi heimavarnarráðherra Bandaríkjanna. Ridge er meðal þeirra ráðherra sem Bush Bandaríkjaforseti ákvað að skipta út eftir endurkjör í vetur. Nú styttist í að Ridge láti af embætti og svo virðist sem hann vilji senda almenningi og eftirmanni sínum skýr skilaboð: Önnur hryðjuverkaárás á Bandaríkin er óumflýjanleg og tímaspursmál sem hann segist hafa sætt sig við. Bandaríkjamenn hafa tekið upp gríðarlega umfangsmikið eftirlit og hryðjuverkavarnakerfi eftir 11. september og túlka mætti orð Ridge sem svo að það kerfi dugi ekki til. En hann bendir líka stjórnvöldum á að einblína ekki á al-Kaída. Þegar hryðjuverk á heimsvísu séu til skoðunar sé rétt að gera sér grein fyrir því að til sé fjöldi samtaka og hópa eins og al-Kaída, hópa sem starfi á sama hátt og hafi jafnvel sömu hugmyndafræði og markmið. Ósama bin Laden sé ekki einsdæmi, nóg sé af slíkum mönnum á kreiki. Ridge kveðst jafnframt óttast að hryðjuverkamenn hafi kjarnorkusprengju undir höndum. Hann telur hryðjuverkahópa hafa mikinn áhuga á að nota kjarnorkuvopn og sýklavopn þar sem mannfall af þeirra völdum yrði mikið. Hafi hryðjuverkamenn slík vopn í búri sínu, leiki enginn vafi á því að þeir hyggist nota þau.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×