Ekki heppilegt að rugga skipinu 30. janúar 2005 00:01 "Það er allt í lagi að menn ólmist í kosningabaráttu og láti gamminn geysa en það eru ákveðin mörk sem menn fara ekki yfir. Menn beita ekki ósæmilegum málflutningi sem meiðir persónu frambjóðenda. Það gera menn almennt ekki í stjórnmálum og það eiga menn ekki heldur að gera innan okkar flokks. Þessi kosningabarátta er mælikvarði á flokkinn. Ef hún fer úr böndunum og verður með þeim hætti að hún verði okkur til vansa verður einfaldlega miklu erfiðara fyrir flokkinn að halda þeim trúverðugleika í framtíðinni sem við höfum náð núna," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sem hefur boðið sig fram til áframhaldandi formennsku í kosningum sem fram fara í vor. Mótframbjóðandi hans er núverandi varaformaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. "Ég nálgast verkefni sem formaður flokksins af auðmýkt og þetta hefur verið eitt gjöfulasta tímabil ævi minnar. Auðvitað ber maður tilfinningar til þessarar hreyfingar og þess vegna hef ég brugðist illa við þegar óstýrilátir og kappsfullir menn hafa í þessari kosningabaráttu talað um það að flokkurinn standi illa," segir Össur. "Ég bregst öndvert við slíku og hart, mér finnst það rangt og menn mega ekki leyfa sér að tala niður flokkinn í þessari baráttu." Samfylkingin á góðri leið Spurður hvað hafi valdið því að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram til áframhaldi formennsku segir Össur að það sé mikið til vegna utanaðkomandi hvatningar. "Úr hópi forystumanna og óbreyttra liðsmanna í Samfylkingunni hafa mér borist mjög eindregnar hvatningar til þess að halda áfram formennsku. Mörgum finnst sem Samfylkingin sé á ákaflega góðri leið núna. Við erum hinn stóri flokkurinn í landinu, við höfum verið með 30 til 35 prósenta fylgi í skoðanakönnunum, málefnastaða flokksins er mjög góð og inn á við hefur okkur miðað afar vel áfram," bendir hann á. Össur segir að það hafi tekist að byggja flokkinn ákaflega vel upp. "Samfylkingin er orðin ein heildstæð hreyfing með sameiginlegu átaki mjög margra víðsvegar um landið með stofnun nýrra félaga og innri uppbyggingu. Það sem við erum stoltust af er að hafa tekist að eyða öllum flokkadráttum milli karla og kvenna sem koma úr mismunandi flokkum. Þetta er mikill árangur," segir hann. "Flokkurinn er því á ákaflega góðri siglingu og því telja margir ekki heppilegt að rugga skipinu með því að skipta um skipstjóra. Við viljum halda áfram að byggja upp þessa samfylkingu um breiðan og öflugan flokk og auðvitað er það næsta verkefni inn á við að treysta enn frekar stefnumótun, opið starf og lýðræðisleg áhrif félaganna. Lýðræðið er af hinu góða og kosningar innan flokka heyra til þess. Mér finnst sjálfum ekki ástæða til þess að skipta um karlinn í brúnni ef hann er að fiska," segir Össur. Hann segir að það sé auðvitað lýðræðislegur réttur að bjóða sig fram. "Okkar hreyfing er þroskuð stjórnmálahreyfing og þess vegna er ég ekki hræddur við þessi átök um forystuna. Í okkar hreyfingu á fólkið að ráða. 14 þúsund manns hafa tækifæri til þess. Allir í stjórnmálum verða einfaldlega að taka slíkum dómi, ég eins og aðrir." Össur formaður frá upphafi Samfylkingin varð til sem kosningabandalag fyrir kosningarnar 1999 og var Össur kjörinn fyrsti formaður flokksins á stofnfundi hans ári síðar. "Mér fannst kosningarnar ganga vel, við fengum 26,9 prósent. Það var flott upphaf," segir Össur um fyrstu alþingiskosningar Samfylkingarinnar. Spurður hvernig það hefði komið til að hann tók að sér formennsku flokksins fyrstur alla segir hann: "Það var Margrét Frímannsdóttir sem hafði forgöngu um að stilla mér upp sem formanni sem og Sighvatur Björgvinsson en Margrét hafði leitt okkur í gegnum frumraunina með miklum ágætum." Hann segir að Samfylkingin hafi farið að rísa upp úr öldudalnum þegar flokkurinn tókst á við mjög erfiða stefnumótun varðandi velferðarmál og Evrópumál á landsfundinum 2001. "Ég held að fólk hafi virt það við okkur, hvort sem það var með okkur eða á móti, að við tókumst á við mjög erfið vandamál og leystum þau. Við fórum nýjar leiðir, tókum til dæmis lýðræðislega ákvörðun varðandi stefnu okkar í Evrópumálum þar sem hún var lögð fyrir kosningu allra flokksmanna. Sá landsfundur varð algjör vendipunktur í okkar sögu. Við vorum í um 15 til 16 prósentum en fórum eftir það að klifra jafnt og þétt þangað til við komumst í 32 prósent þar sem við erum núna," segir Össur. Nátengdur andstæðingnum Össur og Ingibjörg eru gift systkinum. Spurður hvernig það sé að heyja kosningabaráttu við manneskju sem er jafntengd honum og raun ber vitni segir hann: "Í hreinskilni sagt þá er það mjög erfitt. Það er óneitanlega erfitt líka fyrir þá sem næst mér standa í lífinu. Svona er bara lífið. Ég hannaði ekki þetta mynstur, það gerðist bara og hvorugt okkar getur neitt gert í því." "Hugsanlegt er að við séum þrátt fyrir allt það líkum eðliskostum búin að við höfum laðast að sömu einkennum í fari maka okkar - þau eru mjög lík systkinin Hjörleifur og Árný. Við reynum bæði að haga okkar stjórnmálalífi þannig að blanda fjölskyldutengslunum sem minnst inn í það. Íslensk pólitík er hins vegar slungin saman af mjög nánum og stundum erfiðum fjölskyldutengslum. Þetta er ekki einsdæmi - og þarf ekkert að fara til Sturlungaaldar til að finna hliðstæð dæmi um tengt fólk sem etur kappi í pólitík," bendir Össur á. "Ingibjörg Sólrún er vinur minn hvað sem aðrir segja. Við höfum átt áratuga samfylgd í stjórnmálum, við erum saman í fjölskyldu og mín barátta verður einungis háð á málefnalegum grunni. Ég tel að Ingibjörg Sólrún sé sterk stjórnmálakona og hún hefur sótt mikla reynslu til dæmis í kvennahreyfinguna, alveg eins og ég hef sótt mikla reynslu í starf mitt í atvinnulífinu áður en ég gerðist stjórnmálamaður. Það eiga allir sama rétt til þess að keppa um sama markmið og ég. Það er ekkert sæti frátekið, hvorki fyrir mig né Ingibjörgu Sólrúnu," segir hann. Össur leggur á það áherslu að ef fólkið í flokknum feli honum þetta trúnaðarstarf muni hann að sjálfsögðu reyna að fá Ingibjörgu Sólrúnu til að vera áfram í forystusveit og gegna trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna. "Ég tel að það sé mikið rúm fyrir hana í forystu flokksins og það er alveg ljóst að hún er manneskja sem myndi gera flokknum gagn í ráðherrasæti. Þess vegna mun ég reyna að skapa þær aðstæður að hún fallist á að halda áfram í forystusveit flokksins þó svo að úrslitin verði henni ekki í vil," segir hann. Spurður hvað hann muni gera fari svo að hann tapi kosningunum segir hann: "Ég hef alltaf litið svo á að ég væri í þjónustu fólksins, bæði kjósenda sem og flokksmanna minna. Ef þær aðstæður koma upp mun ég hugsa það út frá hagsmunum flokksins, út frá því grundvallarsjónarmiði að fara að vilja fólksins." Ekki hægt að skilja Ingibjörgu eftir á berangri Það vakti mikla athygli og umtal í alþingiskosningunum 2003 að Ingibjörg Sólrún, þáverandi borgarstjóri, var útnefnd forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Spurður hvort ekki hefði verið eðlilegra að hann sem formaður flokksins hefði verið útnefndur forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar svarar Össur: "Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að ég sem formaður flokks í mjög góðri stöðu hefði verið forsætisráðherraefni. Hins vegar var um mjög flókna og erfiða atburðarás að ræða í aðdraganda kosninganna sem leiddi til þess að Ingibjörg Sólrún varð að yfirgefa borgarstjórastólinn. Þá fannst mér sem formanni, að flokki okkar væri fyrir bestu að hlutverkum yrði þannig skipt með forystumönnum sem þá voru í eldlínunni, okkur tveimur, að hún yrði forsætisráðherraefni en ég áfram formaður." "Það voru ekki allir jafnhrifnir af minni ákvörðun," heldur hann áfram. "En ég barðist fyrir henni og þetta varð niðurstaðan. Þegar ég skoða þetta eftir á finnst mér, hvað sem menn segja, að þetta hafi verið rétt ákvörðun í þeirri erfiðu stöðu sem kom upp. Flokkurinn gat ekki skilið Ingibjörgu Sólrúnu eftir á berangri. Ég er ósammála þeim sem segja að þetta hafi verið rangt - á þessum tíma," segir Össur. Þegar hann er spurður hvort hann telji ekki að þetta fyrirkomulag hafi skaðað flokkinn í kosningunum, svarar hann: "Flokksmenn lögðust allir á eitt og við náðum sögulegum árangri, árangri sem flokkurinn hefur haldið fram á þennan dag samkvæmt skoðanakönnunum." Samfylkinguna í ríkisstjórn Össur segir að verkefni hreyfingarinnar sé að leiða flokkinn til meiri áhrifa í landsmálum og mynda nýja ríkisstjórn með áherslum jafnaðar og nýrrar sóknar í menntamálum og efnahagsmálum. "Við Íslendingar getum átt bjarta framtíð fyrir höndum. Það er spurning hvort við séum ekki komin of langt í stóriðjustefnu og eitt af stóru málum framtíðarinnar eru umhverfismál. Við þurfum til dæmis að taka frá ósnortin víðerni og leggja undir þjóðgarða þó að þar séu virkjunarmöguleikar. Seigustu dráttarklárar atvinnulífsins eru hins vegar litlu fyrirtækin, smáfyrirtækin og einyrkjarnir og við í Samfylkingunni erum stolt af því að við lítum á okkur sem stuðningsflokk þeirra bæði til sóknar og varnar. Þetta verður burðarvirkið í atvinnustefnu nýrrar ríkisstjórnar sem Samfylkingin leiðir," segir hann. Össur bendir á að þetta tengist jafnframt áherslum og fjárfestingum í menntakerfinu. "Heimurinn er að breytast þannig að þeir sem ekki hafa tækifæri á að öðlast nýja færni og þjálfun munu í tekjulegu tilliti færast út á jaðar samfélagsins. Hið flókna samfélag sem við erum að sigla inn í krefst símenntunar. Menntakerfið verður jöfnunartæki framtíðarinnar. Það eru fimmtíu þúsund manns sem hafa grunnskólapróf eða minna og bíða tækifæris til frekari menntunar. Og þjóðfélagið þarfnast þessa fólks til starfa," segir hann. Opið samfélag og lýðræði Spurður hvað hafi mótað stjórnmálasannfæringu hans segir Össur að bakgrunnur hans sem stjórnmálamanns standi föstum fótum í lýðræðisbyltingu 68-kynslóðarinnar. "Ég var leiðtogi í stúdentapólitíkinni sem byggðist á því að auka lýðræðisleg áhrif. Það varð líka hlutskipti okkar í A-flokkunum að vinna að lýðræðismálum og að uppstokkun flokkakerfisins, meðal annars að sameina vinstri flokkana í einn stóran. Og það tókst," bendir hann á. "Það sem hefur einkennt þetta ferli og Samfylkinguna er lýðræði og möguleikar einstaklinganna. Þróunin úr stúdentapólitíkinni lá til dæmis í gegnum lýðræðiskynslóðina í Alþýðubandalaginu sem ég var partur af. Lýðræðisáherslur Vilmundar Gylfasonar í Bandalagi jafnaðarmanna ófust saman við gamlar hugmyndir í Alþýðuflokknum frá fyrstu tíð hans, frá tímum Héðins Valdimarssonar og Jóns Baldvinssonar sem lögðu mikla áherslu á jafnan atkvæðisrétt. Þetta speglast í því að þessi kynslóð sem býr til Samfylkinguna hefur lagt langmesta áherslu á opið samfélag og lýðræði," segir Össur. Hann segir hins vegar dapurlegt að sjá hvernig lýðræðinu hefur hnignað. "Það hefur gerst undir forystu eins flokks, því Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað öll tök Framsóknar í hendi sér. Úr því hefur þróast svokallað ráðherraræði, en ekki þingræði, þar sem örfáir menn geta þröngvað vilja sínum í gegnum þingið. Það er okkar erindi í pólitík, að verja rétt þeirra sem lakar eru settir og auka möguleika einstaklingsins og koma á auknu frelsi," segir Össur. Hann bendir á að hægrimenn hafi fengið að stela frá jafnaðarmönnum hugtakinu "frelsi" í sinn áróður. "Það hugtak fer jafnaðarmönnum betur sem bjuggu það til í tengslum við rétt einstaklingsins. Við eigum að hefja aftur til vegs frelsi einstaklingsins, ekki bara til þess að búa til verðmæti með frelsi í viðskiptalífinu, heldur ekki síður frelsi til þess að lifa með reisn hver sem efnahagsleg staða manns er. Það er erindi okkar í pólitík," segir hann. Vill spreyta sig við landstjórn Össur er sannfærður um það að Samfylkingin sé komin á það stig að hún þurfi að spreyta sig við landstjórn. "Hún er fullþroskuð til þess að mynda ríkisstjórn og það er meginhlutverk okkar í dag. Þjóðin ákveður það í næstu kosningum og hvort Samfylkingin fær nægilegt fylgi til þess að leiða landstjórnina. Sú ríkisstjórn mun hafa að leiðarljósi okkar gullna þríhyrning, að ýta undir öflugt, frjálst atvinnulíf til þess að skapa verðmæti sem standa undir skynsamlegu velferðarkerfi. Hvorugt verður að veruleika nema okkur takist að búa til öflugt menntakerfi og fjárfesta í því. Þjóðin hefur beðið lengi eftir ríkisstjórn jafnaðarmanna, okkar tími mun koma," segir Össur. Fréttir Innlent Stj.mál Mest lesið Kostaði umdeilda færslu á síðu flokks sem hann er hættur í Innlent Stuðningur við Trump kostaði sambandið við Elon Erlent „Girtu þig nú í brók og horfstu í augu við sjálfan þig“ Innlent Saksóknarar vilja Pelicot í 20 ára fangelsi Erlent Tvær á toppnum Innlent Virknin stöðug og bundin við nyrsta gíginn Innlent Leitaði á lögreglustöð með áverka eftir líkamsárás Innlent Ítrekar hótanir um að hækka tolla á Kína, Mexíkó og Kanada Erlent Kortleggja neðanjarðarbyrgi vegna hótana Rússa Erlent Íslensk kona í haldi: Hótelherbergi á Tenerife þakið blóði Innlent Fleiri fréttir Vill eyða vantrausti sem sé olía á eld rasisma Kölluð út vegna fiskibáts sem hafði misst vélarafl Leitaði á lögreglustöð með áverka eftir líkamsárás Virknin stöðug og bundin við nyrsta gíginn Kostaði umdeilda færslu á síðu flokks sem hann er hættur í Flugvélar og fólk skautuðu á Hafravatni Tvær á toppnum Gasmengun helsta hættan í Grindavík „Það má Guð vita“ Bælin tóm og Diegos sárt saknað: „Hann er einn af okkur“ „Girtu þig nú í brók og horfstu í augu við sjálfan þig“ Bjartsýni í Karphúsinu og kattarins Díegó leitað Lofa fullum trúnaði ef Diego verður skilað Leitaði trúnaðarupplýsinga til að staðfesta orðróm en fékk sparkið Ákærður fyrir stunguárásina á Menningarnótt Dómsmál setur áform Heidelberg í uppnám Enn talsverður kraftur í eldgosinu Bitist af mikilli hörku um atkvæði íbúa í Ölfusi Breytinga að vænta á fylgi Flokks fólksins Krapastífla hefur myndast í Ölfusá við Selfoss Hjúkrunarfræðingar samþykktu samning Sást á öryggismyndavélum þegar Diego var numinn á brott Lögreglumenn furðuðu sig á vígahnetti Kjörin í stjórn Evrópska ungmennavettvangsins Jane Goodall hvetur stjórnvöld til að beita sér gegn hvalveiðum Opna Grindavík á ný Sérfræðingar rýna í stöðuna á lokasprettinum Ráðgjafar- og greiningarstöð fjársvelt meðan ásókn í þjónustu eykst Töluverðar líkur á leiðindaveðri á kjördag Sjálfstæðismaður vill ekki að sitt fólk striki Dag út Sjá meira
"Það er allt í lagi að menn ólmist í kosningabaráttu og láti gamminn geysa en það eru ákveðin mörk sem menn fara ekki yfir. Menn beita ekki ósæmilegum málflutningi sem meiðir persónu frambjóðenda. Það gera menn almennt ekki í stjórnmálum og það eiga menn ekki heldur að gera innan okkar flokks. Þessi kosningabarátta er mælikvarði á flokkinn. Ef hún fer úr böndunum og verður með þeim hætti að hún verði okkur til vansa verður einfaldlega miklu erfiðara fyrir flokkinn að halda þeim trúverðugleika í framtíðinni sem við höfum náð núna," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sem hefur boðið sig fram til áframhaldandi formennsku í kosningum sem fram fara í vor. Mótframbjóðandi hans er núverandi varaformaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. "Ég nálgast verkefni sem formaður flokksins af auðmýkt og þetta hefur verið eitt gjöfulasta tímabil ævi minnar. Auðvitað ber maður tilfinningar til þessarar hreyfingar og þess vegna hef ég brugðist illa við þegar óstýrilátir og kappsfullir menn hafa í þessari kosningabaráttu talað um það að flokkurinn standi illa," segir Össur. "Ég bregst öndvert við slíku og hart, mér finnst það rangt og menn mega ekki leyfa sér að tala niður flokkinn í þessari baráttu." Samfylkingin á góðri leið Spurður hvað hafi valdið því að hann hafi ákveðið að bjóða sig fram til áframhaldi formennsku segir Össur að það sé mikið til vegna utanaðkomandi hvatningar. "Úr hópi forystumanna og óbreyttra liðsmanna í Samfylkingunni hafa mér borist mjög eindregnar hvatningar til þess að halda áfram formennsku. Mörgum finnst sem Samfylkingin sé á ákaflega góðri leið núna. Við erum hinn stóri flokkurinn í landinu, við höfum verið með 30 til 35 prósenta fylgi í skoðanakönnunum, málefnastaða flokksins er mjög góð og inn á við hefur okkur miðað afar vel áfram," bendir hann á. Össur segir að það hafi tekist að byggja flokkinn ákaflega vel upp. "Samfylkingin er orðin ein heildstæð hreyfing með sameiginlegu átaki mjög margra víðsvegar um landið með stofnun nýrra félaga og innri uppbyggingu. Það sem við erum stoltust af er að hafa tekist að eyða öllum flokkadráttum milli karla og kvenna sem koma úr mismunandi flokkum. Þetta er mikill árangur," segir hann. "Flokkurinn er því á ákaflega góðri siglingu og því telja margir ekki heppilegt að rugga skipinu með því að skipta um skipstjóra. Við viljum halda áfram að byggja upp þessa samfylkingu um breiðan og öflugan flokk og auðvitað er það næsta verkefni inn á við að treysta enn frekar stefnumótun, opið starf og lýðræðisleg áhrif félaganna. Lýðræðið er af hinu góða og kosningar innan flokka heyra til þess. Mér finnst sjálfum ekki ástæða til þess að skipta um karlinn í brúnni ef hann er að fiska," segir Össur. Hann segir að það sé auðvitað lýðræðislegur réttur að bjóða sig fram. "Okkar hreyfing er þroskuð stjórnmálahreyfing og þess vegna er ég ekki hræddur við þessi átök um forystuna. Í okkar hreyfingu á fólkið að ráða. 14 þúsund manns hafa tækifæri til þess. Allir í stjórnmálum verða einfaldlega að taka slíkum dómi, ég eins og aðrir." Össur formaður frá upphafi Samfylkingin varð til sem kosningabandalag fyrir kosningarnar 1999 og var Össur kjörinn fyrsti formaður flokksins á stofnfundi hans ári síðar. "Mér fannst kosningarnar ganga vel, við fengum 26,9 prósent. Það var flott upphaf," segir Össur um fyrstu alþingiskosningar Samfylkingarinnar. Spurður hvernig það hefði komið til að hann tók að sér formennsku flokksins fyrstur alla segir hann: "Það var Margrét Frímannsdóttir sem hafði forgöngu um að stilla mér upp sem formanni sem og Sighvatur Björgvinsson en Margrét hafði leitt okkur í gegnum frumraunina með miklum ágætum." Hann segir að Samfylkingin hafi farið að rísa upp úr öldudalnum þegar flokkurinn tókst á við mjög erfiða stefnumótun varðandi velferðarmál og Evrópumál á landsfundinum 2001. "Ég held að fólk hafi virt það við okkur, hvort sem það var með okkur eða á móti, að við tókumst á við mjög erfið vandamál og leystum þau. Við fórum nýjar leiðir, tókum til dæmis lýðræðislega ákvörðun varðandi stefnu okkar í Evrópumálum þar sem hún var lögð fyrir kosningu allra flokksmanna. Sá landsfundur varð algjör vendipunktur í okkar sögu. Við vorum í um 15 til 16 prósentum en fórum eftir það að klifra jafnt og þétt þangað til við komumst í 32 prósent þar sem við erum núna," segir Össur. Nátengdur andstæðingnum Össur og Ingibjörg eru gift systkinum. Spurður hvernig það sé að heyja kosningabaráttu við manneskju sem er jafntengd honum og raun ber vitni segir hann: "Í hreinskilni sagt þá er það mjög erfitt. Það er óneitanlega erfitt líka fyrir þá sem næst mér standa í lífinu. Svona er bara lífið. Ég hannaði ekki þetta mynstur, það gerðist bara og hvorugt okkar getur neitt gert í því." "Hugsanlegt er að við séum þrátt fyrir allt það líkum eðliskostum búin að við höfum laðast að sömu einkennum í fari maka okkar - þau eru mjög lík systkinin Hjörleifur og Árný. Við reynum bæði að haga okkar stjórnmálalífi þannig að blanda fjölskyldutengslunum sem minnst inn í það. Íslensk pólitík er hins vegar slungin saman af mjög nánum og stundum erfiðum fjölskyldutengslum. Þetta er ekki einsdæmi - og þarf ekkert að fara til Sturlungaaldar til að finna hliðstæð dæmi um tengt fólk sem etur kappi í pólitík," bendir Össur á. "Ingibjörg Sólrún er vinur minn hvað sem aðrir segja. Við höfum átt áratuga samfylgd í stjórnmálum, við erum saman í fjölskyldu og mín barátta verður einungis háð á málefnalegum grunni. Ég tel að Ingibjörg Sólrún sé sterk stjórnmálakona og hún hefur sótt mikla reynslu til dæmis í kvennahreyfinguna, alveg eins og ég hef sótt mikla reynslu í starf mitt í atvinnulífinu áður en ég gerðist stjórnmálamaður. Það eiga allir sama rétt til þess að keppa um sama markmið og ég. Það er ekkert sæti frátekið, hvorki fyrir mig né Ingibjörgu Sólrúnu," segir hann. Össur leggur á það áherslu að ef fólkið í flokknum feli honum þetta trúnaðarstarf muni hann að sjálfsögðu reyna að fá Ingibjörgu Sólrúnu til að vera áfram í forystusveit og gegna trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna. "Ég tel að það sé mikið rúm fyrir hana í forystu flokksins og það er alveg ljóst að hún er manneskja sem myndi gera flokknum gagn í ráðherrasæti. Þess vegna mun ég reyna að skapa þær aðstæður að hún fallist á að halda áfram í forystusveit flokksins þó svo að úrslitin verði henni ekki í vil," segir hann. Spurður hvað hann muni gera fari svo að hann tapi kosningunum segir hann: "Ég hef alltaf litið svo á að ég væri í þjónustu fólksins, bæði kjósenda sem og flokksmanna minna. Ef þær aðstæður koma upp mun ég hugsa það út frá hagsmunum flokksins, út frá því grundvallarsjónarmiði að fara að vilja fólksins." Ekki hægt að skilja Ingibjörgu eftir á berangri Það vakti mikla athygli og umtal í alþingiskosningunum 2003 að Ingibjörg Sólrún, þáverandi borgarstjóri, var útnefnd forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Spurður hvort ekki hefði verið eðlilegra að hann sem formaður flokksins hefði verið útnefndur forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar svarar Össur: "Það hefði verið fullkomlega eðlilegt að ég sem formaður flokks í mjög góðri stöðu hefði verið forsætisráðherraefni. Hins vegar var um mjög flókna og erfiða atburðarás að ræða í aðdraganda kosninganna sem leiddi til þess að Ingibjörg Sólrún varð að yfirgefa borgarstjórastólinn. Þá fannst mér sem formanni, að flokki okkar væri fyrir bestu að hlutverkum yrði þannig skipt með forystumönnum sem þá voru í eldlínunni, okkur tveimur, að hún yrði forsætisráðherraefni en ég áfram formaður." "Það voru ekki allir jafnhrifnir af minni ákvörðun," heldur hann áfram. "En ég barðist fyrir henni og þetta varð niðurstaðan. Þegar ég skoða þetta eftir á finnst mér, hvað sem menn segja, að þetta hafi verið rétt ákvörðun í þeirri erfiðu stöðu sem kom upp. Flokkurinn gat ekki skilið Ingibjörgu Sólrúnu eftir á berangri. Ég er ósammála þeim sem segja að þetta hafi verið rangt - á þessum tíma," segir Össur. Þegar hann er spurður hvort hann telji ekki að þetta fyrirkomulag hafi skaðað flokkinn í kosningunum, svarar hann: "Flokksmenn lögðust allir á eitt og við náðum sögulegum árangri, árangri sem flokkurinn hefur haldið fram á þennan dag samkvæmt skoðanakönnunum." Samfylkinguna í ríkisstjórn Össur segir að verkefni hreyfingarinnar sé að leiða flokkinn til meiri áhrifa í landsmálum og mynda nýja ríkisstjórn með áherslum jafnaðar og nýrrar sóknar í menntamálum og efnahagsmálum. "Við Íslendingar getum átt bjarta framtíð fyrir höndum. Það er spurning hvort við séum ekki komin of langt í stóriðjustefnu og eitt af stóru málum framtíðarinnar eru umhverfismál. Við þurfum til dæmis að taka frá ósnortin víðerni og leggja undir þjóðgarða þó að þar séu virkjunarmöguleikar. Seigustu dráttarklárar atvinnulífsins eru hins vegar litlu fyrirtækin, smáfyrirtækin og einyrkjarnir og við í Samfylkingunni erum stolt af því að við lítum á okkur sem stuðningsflokk þeirra bæði til sóknar og varnar. Þetta verður burðarvirkið í atvinnustefnu nýrrar ríkisstjórnar sem Samfylkingin leiðir," segir hann. Össur bendir á að þetta tengist jafnframt áherslum og fjárfestingum í menntakerfinu. "Heimurinn er að breytast þannig að þeir sem ekki hafa tækifæri á að öðlast nýja færni og þjálfun munu í tekjulegu tilliti færast út á jaðar samfélagsins. Hið flókna samfélag sem við erum að sigla inn í krefst símenntunar. Menntakerfið verður jöfnunartæki framtíðarinnar. Það eru fimmtíu þúsund manns sem hafa grunnskólapróf eða minna og bíða tækifæris til frekari menntunar. Og þjóðfélagið þarfnast þessa fólks til starfa," segir hann. Opið samfélag og lýðræði Spurður hvað hafi mótað stjórnmálasannfæringu hans segir Össur að bakgrunnur hans sem stjórnmálamanns standi föstum fótum í lýðræðisbyltingu 68-kynslóðarinnar. "Ég var leiðtogi í stúdentapólitíkinni sem byggðist á því að auka lýðræðisleg áhrif. Það varð líka hlutskipti okkar í A-flokkunum að vinna að lýðræðismálum og að uppstokkun flokkakerfisins, meðal annars að sameina vinstri flokkana í einn stóran. Og það tókst," bendir hann á. "Það sem hefur einkennt þetta ferli og Samfylkinguna er lýðræði og möguleikar einstaklinganna. Þróunin úr stúdentapólitíkinni lá til dæmis í gegnum lýðræðiskynslóðina í Alþýðubandalaginu sem ég var partur af. Lýðræðisáherslur Vilmundar Gylfasonar í Bandalagi jafnaðarmanna ófust saman við gamlar hugmyndir í Alþýðuflokknum frá fyrstu tíð hans, frá tímum Héðins Valdimarssonar og Jóns Baldvinssonar sem lögðu mikla áherslu á jafnan atkvæðisrétt. Þetta speglast í því að þessi kynslóð sem býr til Samfylkinguna hefur lagt langmesta áherslu á opið samfélag og lýðræði," segir Össur. Hann segir hins vegar dapurlegt að sjá hvernig lýðræðinu hefur hnignað. "Það hefur gerst undir forystu eins flokks, því Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað öll tök Framsóknar í hendi sér. Úr því hefur þróast svokallað ráðherraræði, en ekki þingræði, þar sem örfáir menn geta þröngvað vilja sínum í gegnum þingið. Það er okkar erindi í pólitík, að verja rétt þeirra sem lakar eru settir og auka möguleika einstaklingsins og koma á auknu frelsi," segir Össur. Hann bendir á að hægrimenn hafi fengið að stela frá jafnaðarmönnum hugtakinu "frelsi" í sinn áróður. "Það hugtak fer jafnaðarmönnum betur sem bjuggu það til í tengslum við rétt einstaklingsins. Við eigum að hefja aftur til vegs frelsi einstaklingsins, ekki bara til þess að búa til verðmæti með frelsi í viðskiptalífinu, heldur ekki síður frelsi til þess að lifa með reisn hver sem efnahagsleg staða manns er. Það er erindi okkar í pólitík," segir hann. Vill spreyta sig við landstjórn Össur er sannfærður um það að Samfylkingin sé komin á það stig að hún þurfi að spreyta sig við landstjórn. "Hún er fullþroskuð til þess að mynda ríkisstjórn og það er meginhlutverk okkar í dag. Þjóðin ákveður það í næstu kosningum og hvort Samfylkingin fær nægilegt fylgi til þess að leiða landstjórnina. Sú ríkisstjórn mun hafa að leiðarljósi okkar gullna þríhyrning, að ýta undir öflugt, frjálst atvinnulíf til þess að skapa verðmæti sem standa undir skynsamlegu velferðarkerfi. Hvorugt verður að veruleika nema okkur takist að búa til öflugt menntakerfi og fjárfesta í því. Þjóðin hefur beðið lengi eftir ríkisstjórn jafnaðarmanna, okkar tími mun koma," segir Össur.
Fréttir Innlent Stj.mál Mest lesið Kostaði umdeilda færslu á síðu flokks sem hann er hættur í Innlent Stuðningur við Trump kostaði sambandið við Elon Erlent „Girtu þig nú í brók og horfstu í augu við sjálfan þig“ Innlent Saksóknarar vilja Pelicot í 20 ára fangelsi Erlent Tvær á toppnum Innlent Virknin stöðug og bundin við nyrsta gíginn Innlent Leitaði á lögreglustöð með áverka eftir líkamsárás Innlent Ítrekar hótanir um að hækka tolla á Kína, Mexíkó og Kanada Erlent Kortleggja neðanjarðarbyrgi vegna hótana Rússa Erlent Íslensk kona í haldi: Hótelherbergi á Tenerife þakið blóði Innlent Fleiri fréttir Vill eyða vantrausti sem sé olía á eld rasisma Kölluð út vegna fiskibáts sem hafði misst vélarafl Leitaði á lögreglustöð með áverka eftir líkamsárás Virknin stöðug og bundin við nyrsta gíginn Kostaði umdeilda færslu á síðu flokks sem hann er hættur í Flugvélar og fólk skautuðu á Hafravatni Tvær á toppnum Gasmengun helsta hættan í Grindavík „Það má Guð vita“ Bælin tóm og Diegos sárt saknað: „Hann er einn af okkur“ „Girtu þig nú í brók og horfstu í augu við sjálfan þig“ Bjartsýni í Karphúsinu og kattarins Díegó leitað Lofa fullum trúnaði ef Diego verður skilað Leitaði trúnaðarupplýsinga til að staðfesta orðróm en fékk sparkið Ákærður fyrir stunguárásina á Menningarnótt Dómsmál setur áform Heidelberg í uppnám Enn talsverður kraftur í eldgosinu Bitist af mikilli hörku um atkvæði íbúa í Ölfusi Breytinga að vænta á fylgi Flokks fólksins Krapastífla hefur myndast í Ölfusá við Selfoss Hjúkrunarfræðingar samþykktu samning Sást á öryggismyndavélum þegar Diego var numinn á brott Lögreglumenn furðuðu sig á vígahnetti Kjörin í stjórn Evrópska ungmennavettvangsins Jane Goodall hvetur stjórnvöld til að beita sér gegn hvalveiðum Opna Grindavík á ný Sérfræðingar rýna í stöðuna á lokasprettinum Ráðgjafar- og greiningarstöð fjársvelt meðan ásókn í þjónustu eykst Töluverðar líkur á leiðindaveðri á kjördag Sjálfstæðismaður vill ekki að sitt fólk striki Dag út Sjá meira