Sport

Geta orðið heimsmeistarar

Sænska handboltagoðsögnin Staffan Olsson segist ekki hafa verið hissa á því að Norðmenn hafi unnið Svía á heimsmeistaramótinu í handbolta í Túnis á þriðjudagskvöldið. "Ég ætla ekki að monta mig en ég benti á styrk Norðmanna í tveimur dagblöðum áður en heimsmeistaramótið byrjaði og varaði sænska liðið við þeim," sagði hinn fertugi Olsson sem er hættur að spila með sænska landsliðinu eftir tæplega tveggja áratuga nær samfellda sigurgöngu. Sigurganga sænska liðsins hófst á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu árið 1990 og Olsson er á því að Norðmenn geti leikið það eftir í Túnis og á næstu árum. "Norska liðið með fimm til sex frábæra leikmenn sem spila með bestu liðum Evrópu og í liðinu er góð blanda eldri og yngri manna. Flestir leikmanna liðsins eru á aldrinum 27 til 32ja ára og eru með alþjóðlega reynslu. Ég hef reyndar beðið eftir því í nokkurn tíma að norska liðið slæi í gegn." Olsson sagði norska liðið betra en það sænska í dag. "Þetta norska lið er líka reynslumeira og samstilltara en við vorum árið 1990 og miðað við ganginn og sjálfstraustið sem er í liðinu núna er ekkert ómögulegt. Ég ætla ekki að spá því að Norðmenn verði heimsmeistarar en þeir gætu það," sagði Olsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×