Innlent

Halldór áhyggjulaus

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra kippir sér ekki upp við það að skoðanakönnun sýni að hann sé sá stjórnmálamaður sem þjóðin ber minnst traust til. Í könnun Fréttablaðsins var spurt: Til hvaða stjórnmálamanns berðu minnst traust um þessar mundir? Yfirgnæfandi meirihluti svarenda nefnir Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, eða rúmur þriðjungur. Á eftir Halldóri er Davíð Oddsson oftast nefndur á nafn en þrátt fyrir það hefur trúverðugleiki hans aukist frá síðustu könnun sem gerð var í september. Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Guðni Ágústsson eru svo næst í röðunni. Öll eru þau nefnd oftar á nafn nú en í síðustu könnun.   Fyrir forsætisráðherra tekur ekki betra við þegar spurt er: Til hvaða stjórnmálamanns berðu mest traust um þessar mundir? Davíð Oddsson er sá sem þjóðin ber mest traust til. Steingrímur J. Sigfússon, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde koma næst og hafa, líkt og Davíð, bætt við sig frá síðustu könnun. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra er svo fimmti í röðinni. Aðeins 3,8% svarenda segja forsætisráðherra þann stjórnmálamenn sem þeir bera mest traust til. Fallið er hátt því hlutfallið var rúm 16 prósent í síðustu könnun. Halldór segir svona ganga upp og niður og að kannanir séu líka mismunandi vandaðar. „En þetta er eitthvað sem við siglum í gegnum,“ segir forsætisráðherra. Þrátt fyrir að fylgi Framsóknarflokksins hafi mælst 8% í könnun Fréttablaðsins í síðustu viku ná þeir sem mest traust bera til forsætisráðherra og formanns Framsóknarflokksins ekki fjórum prósentum eins og áður sagði. Hann telur þó ekki að það sé til marks um dvínandi traust framsóknarmanna til formanns síns. Halldór keðst telja að hann hafi mjög tryggt bakland í flokknum sem og hinum stjórnarflokknum.  Úrtakið í könnun Fréttablaðsins var 800 manns og skiptist jafnt milli kynja og kjördæma. Ríflega helmingur aðspurðra kaus að svara.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×