Innlent

Afnotagjöld RÚV felld niður

Afnotagjöld Ríkisútvarpsins verða lögð af samkvæmt stjórnarfrumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi á næstu vikum. Þingflokksformanni Framsóknarmanna líst best á nefskatt í staðinn. Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, segir að frumvarp um Ríkisútvarpið verði lagt fram innan þriggja til fjögurra vikna. Þar verða ýmsar breytingar lagðar til, þ.á m. varðandi afnotagjöldin. Hún segir að þau muni falla niður, enda barn sínst tíma, en önnur fjármögnunarleið komi í staðinn. Ekki liggur hver hún verður. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segist fagna þessu þó tíðindin komi honum ekki á óvart því mikil vinna í málinu hafi farið fram innan stjórnarflokkanna. Það sem skiptir kannski mestu máli sé að sátt sé um að verja Ríkisútvarpið að sögn Hjálmars. Í stað afnotagjaldanna segir Hjálmar að tvennt komi til greina, annars vegar nefskattur eða að setja Ríkisútvarpið á fjárlög. Hann kveðst hlynntari nefskattinum því seinni kosturinn gæti komið niður á sjálfstæði stofnunarinnar sökum breytinga á fjárlögunum á hverju ári.  Þorgerður Katrín segir aðspurð tækifærið ekki verða notað til að styrkja fjárhag Ríkisútvarpsins og auka álögur á landsmenn. Og hún segir að ekki komi til greina að gera stofnunina að hlutafélagi.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×