Innlent

Ætla með málið til Brussel ef þarf

Hafdís Gísladóttir, framkvæmdastjóri Félags heyrnarlausra, segist ekki sætta sig við að borgaryfirvöld skuli hafa hafnað beiðni félagsins um að viðurkennd verði skylda Reykjavíkurborgar til að tryggja endurgjaldslausa túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa foreldra grunnskólabarna. "Ef grunnskóli boðar heyrnarlausa foreldra á foreldrafund og neitar að borga túlkaþjónustu þá hljótum við að fela lögmanni félagsins að skoða það mál," segir Hafdís. "Félagið lítur svo á að með því að neita heyrnarlausum foreldrum um þessa þjónustu sé verið að brjóta á rétti þeirra og mismuna foreldrum." Hafdís segir að líklega verði málinu skotið til félagsmálaráðuneytisins. Félagið muni síðan skoða málið vandlega eftir að úrskurður og umsögn ráðuneytisins liggi fyrir. Ef borgaryfirvöld breyti ekki afstöðu sinni eftir það sé deginum ljósara að farið verði með málið fyrir dómstóla og alla leið til Mannréttindadómstóls Evrópu í Brussel ef þurfa þykir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×