Sport

Stórleikur í Madison Square Garden

Þær voru æsispennandi, lokamínúturnar í Madison Square Garden í gærkvöld þar sem Los Angeles Lakers var í heimsókn hjá New York Knicks í NBA-deildinni í körfuknattleik. Það stefndi allt í stórsigur heimamanna en þeir komust mest í 18 stiga forystu í síðari hálfleik en með miklu harðfylgi náði Lakers að jafna og knýja fram framlengingu. Kobe Bryant jafnaði fyrir Lakers með þriggja stiga körfu þegar 4,4 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Stephon Marbury kom heimamönnum yfir með tveimur vítaskotum en á lokamínútum ákvað Bryant að gefa á Luke Walton frekar en að reyna skot sjálfur. Honum að óvörum skaut Walton ekki heldur gaf hann aftur á Bryant sem náði heldur ekki að skjóta og sigur Knicks í höfn, 117-115. "Ég ætla ekki að kenna Walton um þennan leik," sagði Frank Hamblen, þjálfari Lakers, sem hefur tapað 8 leikjum af 12 síðan hann tók við af Rudy Tomjanovich. "En menn verða að vera ógnandi á vellinum, sérstaklega á þessum tímapunkti." Bryant sagði að um misskilning hafi verið að ræða. "Ég mun gefa á hann í þessari stöðu og hef fulla trú á að hann geti klárað svona leiki. Ég vona að hann viti það," sagði Bryant. Tim Thomas, leikmaður Knicks, var stigahæstur á vellinum með 35 stig en Bryant fór fyrir gestunum með 30 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×