Sport

Ósanngjarn dómur

Leikur Selfoss og Stjörnunnar í 1. deildinni var vægt til orða tekið eftirminnilegur enda gaf Hlynur Leifsson dómari tvo "krossa" og eitt rautt spjald undir lok leiksins. Hlynur var þar með fyrsti dómarinn í háa herrans tíð sem beitir þessari hörðustu refsingu í handboltanum. Hlynur var harkalega gagnrýndur af Haraldi Þorvarðarsyni, leikmanni Selfoss, fyrir að gefa sér krossinn. "Vissulega hefði framkoma mín verðskuldað rautt spjald en ekki krossinn. Það var fáránlegt," sagði Haraldur í viðtali við Fréttablaðið um daginn en hann neitaði í sama viðtali að hafa slegið Vilhelm Sigurðsson, leikmann Stjörnunnar sem einnig fékk krossinn. Á myndbandsupptöku, sem íþróttadeild Fréttablaðsins hefur undir höndum, sést að Haraldur reynir að slá til Vilhelms eftir að Vilhelm ýtir knettinum í andlit hans. Högg Haraldar hittir aftur á móti ekki en hönd Haraldar virðist strjúkast við hönd Vilhelms. "Ég man lítið eftir þessu atviki enda gerðust hlutirnir fljótt. Ég fann samt ekki fyrir því að Haraldur hefði snert mig og hann sagði við mig að boltinn hefði ekki komið við sig," sagði Vilhelm við Fréttablaðið í gær en hann hefur ekki séð upptökuna. "Ég var mjög gáttaður þegar hann sýndi okkur krossana. Mér fannst þetta ekki sanngjarn dómur þar sem krossinn er fyrir líkamlegt ofbeldi. Þetta var ekkert ofbeldi og rautt spjald hefði meira að segja verið strangur dómur. Mér fannst þetta fyndið frekar en annað því ég trúði þessu ekki."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×