Sport

Mourning samdi við Miami Heat

Forráðamenn Miami Heat í NBA-körfuboltanum tilkynntu í gær að liðið hefði gert samning við miðherjann Alonzo Mourning. Mourning, sem er 35 ára að aldri, var valinn annar í nýliðavalinu árið 1992 á eftir Shaquille O´Neal sem leikur einmitt með Heat. Miami-liðið hreppti síðan Mourning í mars árið 1995 og lék hann 8 tímabil með félaginu. Á tímabilinu 2000-2001 kom í ljós að Mourning var haldinn nýrnasjúkdómi sem hefur sett stórt strik í ferilinn hjá kappanum. Hann lék aðeins 13 leiki það tímabil og 12 leiki tveimur árum seinna er honum var skipt til New Jersey Nets. "Líkurnar mínar á að spila körfubolta fara minnkandi," sagði Mourning sem var afar ánægður að vera kominn aftur til Heat. "Ég vildi komast eitthvert þar sem möguleikarnir mínir væru miklir. Núna hef ég fengið þetta tækifæri og ég mun fara með það eins og það sé mitt síðasta." Shaquille O´Neal, miðherji Heat-liðsins, var ánægður með að fá Mourning í raðir Heat. "Hann gerir okkur enn erfiðari fyrir andstæðinginn," sagði O´Neal. Gerald Appel, nýrnasérfræðingur hjá Columbia Universey Medical Center, framkvæmdi nýrnaaðgerð á Mourning fyrir rúmu ári síðan. "Hann er í dásamlegu formi," sagði Appel. "Alonzo er með mjög sterkt hugarfar og vill hjálpa Heat til að vinna titilinn." Stan Van Gundy, þjálfari Heat, sagði að Mourning myndi ekki leika lykilhlutverk fyrst um sinn. "Hann er engu að síður frábær varnarmaður og frákastari. Það er stærsta ástæðan fyrir því að hann er kominn hingað," sagði Stan Van Gundy. Mourning mun klæðast Heat-búningnum í fyrsta sinn á fimmtudaginn þegar Miami verður í heimsókn hjá gömlu félögum Mourning í New Jersey Nets.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×