Sport

NBA - Meistararnir í vanda

Meistarar Detroit Pistons, sem eru nýkomnir af átta leikja sigurgöngu, eru á ferðalagi á vesturströndinni þessa dagana. Þar hafa þeir fengið óblíðar móttökur og eftir að hafa tapað fyrir Phoenix Suns í fyrrinótt, lentu þeir í klónum á öðru toppliði vestanmegin Seattle Supersonics og þurftu að þola annað tap 95-87.  Sonics hafa komið liða mest á óvart í vetur og treysta á hraðan leik og skot utan af velli, nokkuð sem ekki hefur þótt heillavænlegt í deildinni fram að þessu.  Þrátt fyrir að aðalskorarar Sonics ættu ekki sérstakan dag, náðu þeir að leggja meistarana og eru í þægilegri stöðu í norðvesturriðlinum. Liðið er í harðri baráttu um efstu sætin í vesturdeildinni og heimavallarréttinn í úrslitakeppninni í vor. Atkvæðamestir í liði Sonics í nótt voru þeir Rashard Lewis með 18 stig og Jerome James með 16 stig. Hjá meisturum Detroit var Richard Hamilton stigahæstur með 16 stig og Chauncy Billups setti 13 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×