Innlent

Segir ráðningu fjarstæðukennda

Fundur verður haldinn í Ríkisútvarpinu á morgun vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Ríkisútvarpsins frá og með 1. apríl. Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri útvarpsins, segir ráðningu Auðuns Georgs fjarstæðukennda. Jón Gunnar Grétarsson, formaður Félags fréttamanna, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að fréttamenn og aðrir áhugamenn um faglegar mannaráðningar ætluðu að funda í húsnæði Ríkisútvarpsins á morgun eða á fimmtudag vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar í starf fréttastjóra Útvarps. Auðun Georg á að hefja störf á föstudag en ráðning hans vakti hörð viðbrögð og lýstu fréttamenn vantrausti á útvarpsstjóra vegna málsins. Hvorki hefur náðst í Auðun Georg né Markús Örn Antonsson útvarpsstjóra vegna málsins og hafa hvorugur svarað skilaboðum fréttastofu Bylgjunnar. Margrét Indriðadóttir, fyrrverandi fréttastjóri Útvarps, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að ráðningin sé fjarstæðukennd. Hún segir að sér vitanlega hafi aldrei áður verið staðið ófaglega að ráðningu fréttastjóra. Margrét segir útvarpsstjóra láta eins og hann heyri ekki þá niðurstöðu að allir aðrir en sá sem ráðinn hafi verið teljist hæfir og hún spyr meðal annars hver vilji flokkafréttastofu. Margrét segir atlögu Framsóknarflokksins að sjálfstæði fréttastofunnar ekki bera vott um mikið siðvit og með ráðningunni reyni flokkurinn að niðurlægja og lítilsvirða starfsmenn fréttastofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×