Innlent

Deilt á stjórnina vegna Símasölu

"Ákveðið hefur verið að selja hlut ríkisins í Símanum í einu og heilu lagi einum hóp kjölfestufjárfesta," sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á Alþingi í gær er hann kynnti skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu varðandi sölu á Símanum. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði hvað valdi því flókna kerfi um eignarhald á þeim hópi sem má kaupa Símann. "Af hverju þurfa það að vera þrír aðilar að minnsta kosti sem kaupa Símann? Er svarið kannski það að með því sé verið að hámarka líkurnar á því að ýmis vildarfyrirtæki sem standa í skjóli ríkisstjórnarinnar geti komist að kjötkötlunum?" Lúðvík Bergsveinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að í viðskiptalífinu væri þrálátur og sterkur orðrómur að búið sé að ákveða hverjir eigi að kaupa Símann. Halldór gerði að umtalsefni gagnrýni þeirra sem mótfallnir eru því að selja Símann með grunnnetinu: "Ríkisstjórnin hefu lagst gegn því að aðskilja grunnnetið frá Símanum á þeim forsendum að hvergi í Evrópu hafi grunnnet verið aðskilið við einkavæðingu fjarskiptafyrirtækja og lagaumhverfið á Evrópska efnahagssvæðinu geri ráð fyrir samkeppni í rekstri grunnneta í fjarskiptageiranum. Nú síðast hefur fallið um það úrskurður og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sent sænskum stjórnvöldum rökstutt álit þess efnis að Svíar uppfylli ekki skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipun sem fjallar einmitt um samkeppni á fjarskiptamarkaði," sagði Halldór. Össur sagði þetta ekki rétta túlkun hjá forsætisráðherra. "Hið rétta er að óheimilt er að veita ríkisfyrirtæki eða öðru fyrirtæki einkarétt á því að veita fjarskiptaþjónustu eða grunnnetsþjónustu," sagði Össur. Hann benti jafnframt á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi nýlega lagt fram skýrslu þar sem bent var á að ofurtök símafyrirtækja sem búið er að einkavæða stafi af því að þau hafa hin sterku tök sín á markaðinum gegnum grunnnetið. "Það er algert skilyrði hjá okkur í Samfylkingunni að Síminn verði ekki seldur nema grunnnetið verði skilið frá," sagði Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×