Skoðun

Árshátíðir eru úr sér gengnar

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Fyrstu mánuðir hvers árs eru undirlagðir af svokölluðum árshátíðum sem ganga út á það að hrista saman fólk úr öllum deildum og lögum fyrirtækja og vinnustaða, hella í það brennivíni og láta það skemmta sér.

Hefðbundið helgarfyllerí er þarna, einu sinni á ári, fært í sérstakan hátíðarbúning sem kostar það að fólk þarf að huga að fötum, hári og skrati með allt að því mánaðarfyrirvara áður en ósköpin dynja yfir.

Íslendingum finnst gott að hafa skotheld tilefni fyrir sem flestum almennilegum fylliríum og það gefast varla betri tækifæri, en árshátíðir,  til að hrynja í það með góðri samvisku. Nú held ég hreinlega að orð yfir þetta fyrirbæri fyrirfinnist eingöngu í íslensku enda þykir þjóðum sem eru lengra komnar í mannamótum, drykkju og skemmtanahaldi það kannski full púkó að slá upp sérstökum árshátíðum.

Árshátíðirnar, eins og þær þekkjast á Íslandi, hljóta að vera arfur frá liðinni tíð og hafa sjálfsagt átt fullan rétt á sér á fyrri hluta síðustu aldar þegar fólk hittist sjaldan og símar og bílar voru ekki í almannaeigu. Þá hefur það þótt eðlilegt að skarta sínu fínasta og berast á á balli sem var ef til vill eina djúttið sem fólk hafði kost á það árið.

Nú eru hins vegar árshátíðir haldnar nánast á hverju kvöldi á skemmtistöðum í Reykjavík þannig að þessi eina sanna árshátíð er ekkert annað en innantóm viðbót enda er líklega fátt sorglegra og tilgangslausara en að skemmta sér með fólki sem maður umgengst dagsdaglega í vinnunni.

Það dapurlegasta við árshátíðir fyrirtækja er svo auðvitað stéttaskiptingin sem kemur hvergi betur í ljós en þegar verkamenn og undirmenn reyna að standa jafnfætis toppunum þegar þeir eru komnir á fimmta glas. Það eru skýr merki um að maður eigi að fara að drífa sig heim af árshátíð þegar vinnuþrælarnir eru komnir á trúnaðarstigið við stjórana. Þeir fyrrnefdnu í Hagkaupsjakkafötum en hinir í sérsaumuðu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×