Innlent

Athyglin dregin frá kjarna málsins

Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að forseti Alþingis hafi beitt gamaldags aðferðafræði í pólitík og dregið athyglina frá kjarna málsins með því að víta hann á þinginu. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, taldi ummæli Lúðvíks úr ræðustól Alþingis í fyrradag vítaverð og var það í þriðja skipti á þremur árum sem Halldór beitti þingvíti gegn þingmanni. Halldór segir það hvergi líðast í þjóðþingum að þingmaður taki orðið af þingforseta og segir Lúðvík hafa sýnt dónaskap. Lúðvík segir forseta Alþingis með þessu vera að slá ryki í augu fólks. Hann telji að forseti hafi þarna beitt gamaldags aðferðarfræði í pólitík þar sem tilgangurinn sé sá að draga athyglina frá kjarna málsins. Lúðvík segir kjarnann vera þann að hann hafi leitað um langt skeið eftir umræðu um störf einkavæðingarnefndar, sérstaklega í tengslum við sölu hlutabréfa í Búnaðarbankanum sem að hans mati hafi verið algjört hneyksli. Sú aðferðarfræði að henda út reyksprengju og víta mann sem reyni að kalla eftir umræðu sé til þess fallin að kasta ryki í augu almennings. Lúðvík segir að ef hann þurfi að fá á sig víti þegar hann hafi góðan málstað þá taki hann því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×