Innlent

Davíð og Halldór deila

Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn greinir á um hvort breyta eigi lögum um eftirlaun ráðherra og þingmanna til að koma í veg fyrir að fyrrverandi ráðherrar geti fengið greidd eftirlaun þrátt fyrir að vera enn í launuðum störfum á vegum ríkisins. Lög um eftirlaun ráðherra og þingmanna voru endurskoðuð í lok árs 2003 og í kjölfarið voru ný lög samþykkt. Þegar Fréttablaðið upplýsti snemma árs að nokkrir fyrrverandi ráðherrar þæðu eftirlaun þrátt fyrir að vera enn á fullum launum í öðrum störfum á vegum ríkisins hét Halldór Ásgrímsson því á Alþingi að ákvæðið yrði tekið til endurskoðunar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru framsóknarmenn staðráðnir í því að afnema ákvæðið úr lögunum, þótt sjálfstæðismenn segi það ekki koma til greina. Í þrjá mánuði hafa ráðherrar flokkanna tekist á um hvort, og þá hvernig, breyta eigi lögunum og var ætlunin að leggja fram nýtt stjórnarfrumvarp fyrir þinglok í maí. Meðal annars hafa flokkarnir tekist á um það hvort brotið yrði gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ef tekinn yrði af mönnum réttur sem þeim þegar hefur verið fenginn, það er rétturinn á því að þiggja eftirlaun og laun samhliða. Davíð Oddsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að ekki stæði til að breyta lögunum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er Halldór Ásgrímsson þó enn staðráðinn í því að beita sér fyrir því að þessi réttur verði afnuminn. Samþykki beggja flokka þarf þó til svo leggja megi fram stjórnarfrumvarp. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vonast framsóknarmenn enn til þess að flokkarnir nái saman um málið og ætla framsóknarmenn að reyna til þrautar að ná sáttum við samstarfsflokkinn um breytingarnar. Fulltrúar allra flokka stóðu að frumvarpinu á sínum tíma og hafa allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur lýst yfir vilja til að afnema ákvæðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×