Innlent

Forsætisráðherra ekið í vetnisbíl

Forsætisráðherra var ekið í fólksbíl inn í ráðstefnusal í dag. Um var að ræða vetnisknúinn bíl og markaði ökuferðin upphaf ráðstefnu þar sem kynntar eru niðurstöður vetnisstrætisvagna-verkefnisins sem staðið hefur yfir síðustu tvö ár. Vetnisvagnarnir hafa nú verið í umferð í Reykjavík frá árinu 2003 og hafa ekið 65 þúsund kílómetra. Í raun hefur fátt komið verulega á óvart. Talsverðar bilanir urðu í vögnunum í upphafi en öllu viðameiri vandamál hafa komið upp við rekstur vetnisstöðvarinnar við Vesturlandsveg þar sem framleidd hafa verið 12 tonn af vetni. Tvisvar hefur orðið að hætta framleiðslu í stöðinni vegna tæknivandamála og í annað skiptið lá framleiðslan niðri í þrjá mánuði. NýOrku-menn segja þessi vandamál leyst, líkja þeim við barnasjúkdóma, og stefna ótrauðir á framhaldið. Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir það í viðræðum við nokkur af helstu bifreiðafyrirtækjum í heiminum, þ.á m. DaimlerChrysler, um að fá til landsins bíla til að taka við strætisvögnunum. Einnig eru viðræður í gangi við Evrópusambandið um að framlengja verkefnið út árið 2006 Í tilefni af ráðstefnunni var í fyrsta skipti fluttur til landsins hefðbundinn vetnisfólksbíll. Hann naut athygli ráðherra og þingflokksformanna við Alþingishúsið í morgun en síðan var Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra ekið á honum inn í ráðstefnusalinn. Engin ástæða ku vera til að hafa áhyggjur af heilsu ráðstefnugesta í kjölfarið. Engin mengun er frá bílnum og eini útblásturinn er lítilsháttar vatnsgufa. Jón Björn neitar því alfarið að þrýst hafi verið á forsætisráðherra að fjárfesta í slíkum bíl, en hann segist þó hafa bent ráðherra á að fella þurfi niður virðisaukaskatt af vetnisknúnum bílum. Vaskurinn af fólksbílnum sem honum var ekið í í dag er t.a.m. 5,5 milljónir, eftir endurgreiðslu frá ríkinu. Nú liggur fyrir frumvarp sem gerir ráð fyrir að tveir þriðju hlutar vasksins verði endurgreiddir.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×