Innlent

Mikil eftirsjá í Eyrarhrauni

Eyrarhraun, húsið sem brann til kaldra kola í Hafnarfirði í gærkvöldi, hafði mikið menningarsögulegt gildi fyrir bæinn að mati sagnfræðings við Byggðasafn Hafnarfjarðar. Hann segir yfirvöld hafa reynt að vernda húsið fyrir skemmdarvörgum - en það sé erfitt verkefni. Húsið stóð í hrauninu, mjög nálægt byggð, en þó í nægu skjóli fyrir brennuvarga að komast þangað inn tvö kvöld í röð til að kveikja í. Honum eða þeim tókst ætlunarverkið í gærkvöldi og fuðraði húsið upp á skömmum tíma. Enginn vegur liggur að því svo erfitt var um vik fyrir slökkvilið að athafna sig. Húsið var byggt 1904 og var því verndað samkvæmt húsaverndunarlögum. Það hafði staðið mannlaust í ár. Karl Rúnar Þórsson sagnfræðingur húsið hafa verið sérstakt. Hann bendir á að rithöfundurinn Stefán Júlíusson, höfundur bókanna um Kára litla og Lappa, hafi búið í húsinu um fjórtán ára skeið og ritað um það bók. Spðurður hvort ekki hefði verið hægt að vernda húsið betur fyrst það var svona einstakt segir Karl að ekki hefði fengið stoppað skemmdarvargana að því er virðist. Bæjaryfirvöld höfðu í hyggju að finna húsinu nýtt hlutverk en hugmyndavinna var skammt á veg komin. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir það vissulega dapurt að svona hafi þurft að fara en sem betur fer séu enn til fleiri hraunbæir, þótt þeir séu ekki nákvæmlega eins og Eyrarhraun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×