Innlent

Sauðfé fjölgar í Garðabæ

Sauðfé hefur fækkað í Kópavogi og Hafnarfirði, en því hefur heldur fjölgað í Garðabæ og á Álftanesi, samkvæmt nýjustu tölum frá heilbrigðiseftirliti svæðisins. Ekki er þó hægt að segja að stórbúunum sé fyrir að fara á þessu svæði. Það er ósköp lítið orðið eftir af sauðfé í þessum stóru bæjarfélögum, en þó leynist alltaf einn og einn frístundabóndi inni á milli sem ekki vill hætta, hvað sem líður allri byggðaþróun. Mest varð sauðfjárfjölgunin á Álftanesi, úr 19 í 39 kindur, en flestar eru þær í Garðabæ, 143. 30 þeirra tilheyra Pálshúsum. Guðjón Jósepsson bóndi er með kvóta fyrir þeim en er óánægður með sumarbeitilandið, „ördeyðuna uppi í Krísuvík“, sem smábændurnir fá. Hann segir kindurnar eiga á hættu að horast þar yfir sumarið.  Guðjón segist hafa fundið fyrir þrýstingi að hætta búskapnum en það hafi minnkað eftir því sem á líði. „Þeir vita að við erum að drepast úr elli. Þá hætta þeir að hafa áhyggjur af þessu,“ segir Guðjón.  Guðjón er fæddur í Pálshúsum og hefur búið þar alla ævi. Byggðin hefur þokast nær og nær á þeim sjö áratugum og búskapur ekki orðinn svipur hjá sjón. Mjólkurframleiðslu lauk fyrir tíu árum. Aðpurður hvort hann ætli að dútla þarna með sínar þrjátíu kindur þar til verða risin fjölbýlishús við afleggjarann hjá honum segist Guðjón allt eins búast við því - ef hann verði ekki settur á hæli áður. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×