Innlent

Misræmi í vörugjöldum bifreiða

Í stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda segir að stuðla eigi að auknum innflutningi á sparneytnari bílum með breytingum á vörugjaldi. Þrátt fyrir þessi góðu áform njóti pallbílar, sem almennt séu frekar orkufrekir, sérstaks afsláttar af vörugjaldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landvernd. Samtökin vilja benda á það misræmi sem gildir í álagningu vörugjalda á bifreiðir þar sem álagning á pallbíla sé margfalt lægri en á aðra bíla sem standa fólki til boða til einkanota. Landvernd segist ekki beina gagnrýni sinni að þeim einstaklingum sem velja að kaupa pallbíla, né seljendum bílanna, heldur að þeirri aðgerð stjórnvalda að veita undanþágu á vörugjöldum fyrir þessa tilteknu tegund bifreiða á forsendum sem byggi á veikum grunni. Með þessari aðgerð hvetja stjórnvöld til kaupa á kraftmiklum bílum sem eyða meira en meðalbíllinn, að því er segir í tilkynningunni. Slík neyslustýring geti tæplega talist þjóna mikilvægum samfélagslegum tilgangi, hvort sem litið er til umhverfis-, efnahagslegra- eða félagslegra þátta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×