Innlent

Vill afnema tekjutengingu öryrkja

Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri í Reykjavík kveðst vilja afnema tekjutengingu öryrkja, nema þeirra sem vinni fyrir umtalsverðum tekjum. Hún segir að um leið og fólk reyni að komast út á vinnumarkaðinn, þótt ekki sé nema í litlum mæli, þá sé lífeyririnn tekinn af því. Í því sé ekkert vit. "Fólk verður öryrkjar af slæmum aðstæðum, bæði heilsufarslegum og félagslegum, sem geta leitt til ýmis konar sjúkdóma. Langtíma atvinnuleysi gerir það að verkum að menn verða óvirkir í samfélaginu. Það er þvílíkt niðurbrot á sjálfsvitund og sjálfsvirðingu, auk bágs fjárhags, að þeir sem fyrir því verða missa heilsuna," sagði Lára. "Ég hef horft upp á einstæðar mæður með lítið stuðningsnet verða veikar af vonleysinu einu saman. Þær sjá enga leið út, en lenda inni í einhverjum vítahring. Andleg og líkamleg heilsa helst í hendur. Margir karlmenn sem flosna upp frá fjölskyldunni lenda utan garðs og enda sem öryrkjar." Lára sagði þá ábendnginu réttmæta að arðsemiskröfur á vinnumarkaði væru miklu meiri nú heldur en áður. Hvíla ætti samfélagsleg skylda á fyrirtækjum landsins, bæði í opinbera og enn frekar í einkageiranum þar sem menn græddu á tá og fingri, að ráða fólk til starfa sem hefði ekki fulla starfsgetu en gæti unnið ýmislegt. "Ég vil að menn fái að vinna með örorkubótunum, alveg eins og þeir geta, því það skiptir svo miklu máli fyrir heilsuna," sagði Lára. "Það er hægt að hjálpa fólki með þessu móti svo og öflugri endurhæfingu. Það þarf að setja fjármuni í endurhæfingaverkefni. Stuðningsverkefni af þessum toga hafa verið reynd í litlum mæli, en það vera miklu meira því það er þjóðhagslega hagkvæmt." Lára kvaðst vilja sjá tekjutengingunni þannig háttað að fólk þyrfti að vera með allverulegar teljur til þess að bætur færu að skerðast. Það væri hryggilegt að horfa upp á það að þeir sem væru að reyna að komast til vinnu aftur úti í samfélaginu þyrftu að láta krónu í skerðingu á móti krónu sem þeir ynnu sér fyrir. Væri þessu breytt yrði minna um svarta vinnu og vinnuumhverfið allt heilbrigðara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×