Innlent

Atvinnurekendur hafna frumvarpi

Frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið brýtur gegn samkeppnislögum og reglum Evrópska efnahagssvæðisins um ríkisstyrki. Þetta kemur fram í áliti Samtaka atvinnulífsins sem sent var menntamálanefnd Alþingis í gær. "Við mælum gegn því að frumvarpið verði samþykkt í þeirri mynd sem það er nú. Í því er gert ráð fyrir áframhaldandi ríkisstyrkjum til dagskrárgerðar og þjónustu á markaði sem er í engu frábreytt því sem einkafyrirtæki eru að bjóða," segir Ari Edwald framkvæmdastjóri SA. "Við drögum í efa að það fái staðist reglur EES um ríkisstyrki. Sérstök rök verða að vera fyrir því að veita ríkisstyrki fyrir slíka starfsemi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að halda áfram að reka ríkisfyritæki, sem nú er rekið með tapi, með styrkjum frá ríkinu sem hlýtur að eyðileggja skilyrði fyrir heilbrigðri samkeppni á þessu sviði," segir Ari. Í umsögninni segir að útvarpsrekstur sé frjáls atvinnustarfsemi og því þurfi lög um hann að vera laus við mismunun sem á sér ekki eðlilegar forsendur. Ekki sé gætt nægjanlega að þessum þætti í frumvarpinu og verði einkaaðilum í útvarpsrekstri ekki tryggt eðlilegt jafnræði, segir í umsögninni. Þá segir að almannaþjónustuhlutverk RÚV sé ekki nægilega vel skilgreint og engu betur en nú er gert í lögum. Einnig sé flestum þeirra atriða sem skilgreind eru sem útvarpsþjónusta í almannaþágu nú einnig sinnt af einkareknum útvarpsstöðvum. "Telja samtökin að með samþykkt frumvarpsins yrði fest í sessi óhófleg mismunun í skilyrðum til útvarpsrekstrar sem engin sátt gæti orðið um og teljast verði andstæð markmiði samkeppnislaga," segir í umsögninni. Ekki náðist í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra í gær og Gunnar I. Birgisson, formaður menntamálanefndar, vildi ekki tjá sig um umsögnina að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×