Innlent

Ekki lengra gengið í aðhaldi

Háskólaráð og deildarforsetar við Háskóla Íslands telja að til þess að skólinn geti áfram staðið undir þeim kröfum og væntingum sem til hans séu gerðar verði ekki gengið lengra í aðhaldi og sparnaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun Háskóla Íslands vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um stofnunina. Í ályktuninni benda yfirvöld í háskólanum á að í skýrslunni komi fram að rekstrarkostnaður Háskóla Íslands sé lægri en í sambærilegum háskólum í nágrannalöndum og að þó svo að fé til rannsókna hafi nánast staðið í stað hafi afköst í rannsóknum aukist. Háskóli Íslands hafi náð ágætum árangri á mörgum sviðum, fjöldi útskrifaðra nemenda í grunn- og meistaranámi sé mikill, doktorsnemum hafi fjölgað og að rannsóknavirkni íslenskra vísindamanna sé tiltölulega há. Segir í ályktuninni að skýrslan leiði ótvírætt í ljós að við meðferð og nýtingu ríkisfjár sé gætt hagkvæmni og skilvirkni í rekstri Háskólans. Þá telur Háskóli Íslands að skýrsla Ríkisendurskoðunar sýni einnig að einkar mikilvægt sé að sérstaða Háskóla Íslands sem alhliða háskóla í alþjóðlegri samkeppni sé viðurkennd. Standa verði vörð um rannsóknahlutverk skólans og efla og styrkja rannsóknastarf hans til að gera honum kleift að gegna áfram hlutverki sínu sem mikilvægasta menntastofnun þjóðarinnar. Þá er bent á það að til þess að fé til rannsókna við Háskólann verði sambærilegt við rannsóknarfé þeirra sex norrænu skóla sem HÍ ert borinn saman við í skýrslu Ríkisendurskoðunar þurfi fjárveiting til rannsókn að minnsta kosti að tvöfaldast. Fjárveitingar til kennslu séu einnig lágar í samanburði við hliðstæða erlenda háskóla og hafi Háskóli Íslands bent á að framlög ríkisins vegna nemenda hafi ekki hækkað í takt við kostnaðarhækkanir. Háskóli Íslands tekur undir ummæli menntamálaráðherra að efla þurfi háskólamenntun í landinu með Háskóla Íslands í fararbroddi en ætlast til þess að stjórnvöld auki fjárveitingar til Háskóla Íslands svo þær verði sambærilegar við fjárveitingar til norrænna háskóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×