Innlent

Tíu sveitarfélög undir eftirliti

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent tíu sveitarfélögum boð um samning um fjárstyrk vegna fjárhagsvanda. Byggist þetta á reglum sem samþykktar voru í tengslum við sérstakt 200 milljóna króna framlag ríkisins í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Snæfellsbær, Blönduós, Siglufjarðarkaupstaður, Ólafsfjarðarbær, Dalvíkurbyggð, Aðaldælahreppur, Húsavík, Seyðisfjarðarkaupstaður, sveitarfélagið Hornafjörður og Vestmannaeyjabær. Ekki hefur verið ákveðið hvernig fjámununum verður skipt milli sveitarfélaganna, það ræðst af svörum þeirra og síðan af íbúafjölda og fjárhagsstöðu. Lárus Bollason, starfsmaður eftirlitsnefndarinnar, segir alls ekki mega draga þá ályktun að þessi tíu sveitarfélög séu á barmi gjaldþrots, þetta séu einungis þau sveitarfélög sem nefndin hafi talið í hvað verstri stöðu. Og hann á ekki von á öðru en að þau muni öll vera fús til að ganga til samninga við nefndina. "Ég hef ekki heyrt neinn hafna þessu ennþá", segir Lárus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×