Erlent

Flest líkin af konum og börnum

Fjöldagröf með 1500 líkum hefur fundist í suðurhluta Írak. Flest eru líkin af börnum og konum. Alls hafa um 300 slíkar grafir fundist frá því að Saddam Hussein var komið frá völdum í landinu. Skammt frá Samawa, um þrjúhundruð kílómetra suður af Bagdad, fundust átján skurðir þar sem líkamsleifar allt að1500 manna fundust. Stórtækar vinnuvélar þurfti til að grafa skurðina á sínum tíma í kalkstein og segja rannsóknarmenn að staðsetningin hafi verið valin vel og allt hafi verið gert til að fela grafirnar. Þessi fjöldagröf er meðal 300 slíkra grafa sem að fundist hafa síðan að Saddam Hussein var steypt af stóli. Talið er að líkamsleifarnar séu af Kúrdum sem voru hraktir frá heimilum sínum seint á níunda áratug síðustu aldar. Flest fórnarlambanna voru konur og börn sem var stillt upp á grafarbakkanum og skotin með AK-47 hríðskotariflum. Tvö af hverjum þremur líkum sem fundist hafa eru af unglingum og börnum. Réttarrannsókn fer fram á líkunum innan skamms til að skera úr um hvort að hægt er nota gröfina sem sönnunargagn í dómsmáli Saddams Husseins og samverkamanna hans sem tekið verður fyrir innan skamms. Þeir eru sakaðir um glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×