Innlent

Hvít jörð á Húsavík

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru komnir á fullt í vorverkunum enda er þetta tíminn sem starfsmenn borgar og bæja hirða poka með garðaúrgangi sem fólk setur út fyrir lóðamörk. Í Reykjavík var farið að bjóða þessa þjónustu í gær og verður hún í boði til 7. maí. Á Húsavík bíða menn hins vegar með vorverkin því þar var jörð hvít þegar menn vöknuðu í morgun. Fréttastofa Bylgjunnar náði tali af Halldóri Ingólfssyni, íbúa á Húsavík, skömmu fyrir hádegisfréttir. Hann segir að snjóþekja sé yfir öllu og leiðindaveður með norðanátt og snjókomu. Fimm til tíu sentímetra jafnfallinn snjór sé í bænum. Húsvíkingar séu því ekki vorverkunum. Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af gróðri segist Halldór ekki gera það. Það sé ekki mjög kalt, hitinn sé rétt yfir forstmarki og gróðurinn hafi heldur ekki verið kominn mikið af stað. Halldór segir það ekkert nýtt að hret komi á þessum tíma á Húsavík en þetta sé svolítið erfitt þegar menn séu komnir á sumardekk. Flestir hafi haldið að sumarið væri að koma þar sem tíðin hefði verið góð að undanförnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×