Erlent

Ráðist á ferðamenn í Egyptalandi

Röð árása á ferðamenn í Egyptalandi kostaði þrjá lífið í dag. Sjö særðust. Mildi þykir að ekki skyldu fleiri týna lífi. Fyrri árásin átti sér stað við vinsælt safn í miðborg Kaíró. Talið er að um sjálfsmorðssprengjuárás hafi verið að ræða og haft er eftir talsmanni lögreglu að árásarmaðurinn hafi stokkið ofan af brú á flótta og sprengt sprengjuna um leið. Þar særðust þrír Egyptar, par frá Ísrael, ítölsk kona og Svíi. Þau eru öll á sjúkrahúsi og er líðan eftir atvikum. Sprengjan var full af nöglum og skrúfum og fjöldi fólks var á safninu í dag. Árásarmaðurinn sprengdi sprengjuna hins vegar fyrir aftan safnið og því var mannfallið ekki meira. Hann sjálfur var sá eini sem fórst. Innan við tveimur stundum síðar hófu tvær konur með blæjur að skjóta á hópferðabíla með ferðamenn innanborðs. Talið er að önnur konan hafi verið eiginkona árásarmannsins í fyrra tilvikinu. Konunum tókst þó ekki að hitta hópferðabílinn og kom til byssubardaga við lögreglu. Önnur konan skaut þá hina og sjálfa sig í kjölfarið. Aðrir létu ekki lífið í þeirri árás. Árásin markar tímamót í Egyptalandi því aldrei áður hafa konur gert hryðjuverkaárás af þessu tagi. Allt er fólkið talið tilheyra hreyfingu sem skipulagði árás á ferðamenn á útimarkaði í Kaíró í upphafi mánaðarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×