Innlent

Bjartsýn og opna tískuverslun

Jóna Björg Óskarsdóttir og maður hennar, Víglundur Jón Gunnarsson, hafa opnað tískuverslunina Pex í Molanum á Reyðarfirði. Þau hafa rekið aðra tískuverslun í Neskaupstað í 15 ár. Þau hafa einnig verið með fatahreinsun. Jóna Björg er ánægð með viðtökurnar í Molanum. "Við vildum stækka við okkur og það er mikið að ske hér svo að við ákváðum bara að koma hingað með verslun. Við búum í Neskaupstað en erum með starfsfólk héðan," segir hún. Jóna Björg segir að versluninni hafi verið vel tekið. "Það eru allir voðalega jákvæðir og mikið af fólki að flytja heim. Íbúunum fjölgar hérna í öllum hverfum. Það hefur ekki enn komið í ljós hvaða áhrif það hefur á verslunina, við höfum bara haft opið í viku en við vonum að þetta hafi jákvæð áhrif," segir hún. "Kannski koma Fjarðabúar meira hingað að versla og fara ekki upp á Hérað eða til Akureyrar að versla. Vonandi skilja þeir meira eftir heima hjá sér frekar en að fara burt til að versla."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×