Innlent

Reykvíkingar sinntu vorverkum

Reykvíkingar voru duglegir við að taka til í görðunum sínum í dag enda veðrið gott þó hitinn hafi ekki verið mikill. Nú sem fyrr hvetja borgaryfirvöld í Reykjavík alla borgarbúa til að hreinsa lóðir sínar í hinu sameiginlega árlega átaki við að hreinsa og fegra borgina. Starfsmenn framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar verða á ferðinni til 7. maí og fjarlægja garðaúrgang sem fólk hefur sett út fyrir lóðarmörk og því tilvalið að nota daga sem þessa til að vera duglegur í garðinum. Konráð Hjálmarsson, sem var einn þeirra kom með garðaúrgang í Sorpu í dag, segist láta veðrið stýra því hvenær hann fari út. Hann fari út í góðu veðri en sitji við sjónvarpið þegar veðrið sé verra. Hann segir enn fremur að hann og konan sinni bæði garðinum Margrét Sigurðardóttir var einnig með garðaúrgang í Sorpu. Hún hafði verið að saga niður tré og sagðist aðspurð vera með mátulega stóran garð. Aðspurð hvort hún þyrfit að gera meira í garðinum sagði Margrét að hún myndi halda áfram til haustsins. Hún væri alltaf í garðinum þegar hún mætti vera að og ætti góðar stundir þar. En þótt sunnanmenn hafi verið ánægðir með veðrið í dag er líklega enn of kalt fyrir tjaldferðalanga því aðeins var eitt tjald var á tjaldstæðinu við Laugardal. Ferðamaðurinn í tjaldinu, sem fréttamaður reyndi að ná tali af, var ekki tilbúinn að koma út enda kannski svolítið svekktur yfir að hafa ekki komið aðeins seinna þegar hlýrra væri í veðri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×