Erlent

Stríðsákvarðanir teknar árið 2002?

Tony Blair og George Bush voru staðráðnir í að bola Saddam Hussein frá völdum níu mánuðum fyrir upphaf stríðsins í Írak hið minnsta. Þetta kemur fram í leyniskjölum sem lekið var í breska fjölmiðla og þeir birta í dag. Tony Blair hefur ávallt haldið því fram að hann hafi ekki tekið ákvörðun um aðild að stríðinu í Írak fyrr en Saddam hafði hafnað úrslitakostum sem honum voru settir og að þá hafi markmiðið jafnframt verið að finna gjöreyðingavopn Íraka en ekki bola Saddam frá. En dagblaðið Sunday Times birtir í dag brot úr fundargerð ríkisstjórnarfundar sem haldinn var í júlí árið 2002, níu mánuðum fyrir innrásina í Írak. Írak var efst á dagskrá fundarins. Í fundargerðinni kemur fram að Blair hafi einmitt rætt það við ráðherra í stjórn sinni að koma Saddam frá. Væri pólitíska samhengið rétt myndi fólk sætta sig við stjórnarbyltingu, er haft eftir Blair. Hann á einnig að hafa sagt að lykilatriði væri að tryggja að hernaðaráætlanir væru raunhæfar og að tryggja bæri hernum nægilegt svigrúm. Jack Straw mun þá hafa blandað sér í umræðuna og sagt að rökin fyrir stríði væru ekki góð þar sem Saddam ógnaði ekki nágrönnum sínum og að margfallt minni hætta stafaði af gjöreyðingarvopnum hans en til að mynda vopnabúrum Líbíu, Norður-Kóreu og Írans. Richard Dearlove, yfirmaður njósnamála, var nýkominn frá Bandaríkjunum og kvaðst hafa komist að þeirri niðurstöðu að stríð væri óhjákvæmilegt þar sem Bush vildi bola Saddam frá og að upplýsingum og staðreyndum væri hagrætt til að réttlæta þá stefnu. Upplýsingarnar þykja til þess fallnar að valda Tony Blair enn frekari vanda síðustu daga kosningabaráttunnar í Bretlandi og benda enn fremur til þess að hann hafi ekki sagt satt í aðdraganda stríðsins. Ekki hefur verið staðfest að fundargerðin sé ósvikin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×