Erlent

Tugir Íraka falla í tilræðum

Uppreisnarmenn í Írak héldu í gær áfram árásum til að bjóða nýmyndaðri ríkisstjórn landsins birginn. Tuttugu Írakar, flestir Kúrdar, biðu bana og minnst 30 særðust síðdegis í bílsprengjutilræði í útför í Kirkuk í norðurhluta landsins. Fyrr um daginn höfðu að sögn lögreglu að minnsta kosti tíu Írakar látið lífið og á þriðja tug særst í sprengju- og skotárásum. Þá gerðist það einnig í gær að hermenn handtóku menn suður af Bagdad, sem grunaðir eru um að hafa verið viðriðnir brottnám Margaret Hassan, bresks hjálparstarfsmanns, sem talin er hafa verið myrt í fyrra. Við handtökuna fundust munir sem líklegt er talið að hafi tilheyrt Hassan. Enn fremur var birt myndband sem sýnir ástralskan gísl biðja um að bandaríska herliðið yfirgefi Írak, ella verði hann tekinn af lífi. Að minnsta kosti 110 manns hafa látið lífið í árásum uppreisnarmanna í Írak síðan á föstudag, en sýnt þykir að þessi hrina árása sé hugsuð af hálfu uppreisnarmanna til að sýna að nýmynduð ríkisstjórn Íraks sé því verkefni ekki vaxin að koma á friði og reglu í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×