Erlent

NATO ekki vörður Evrópu

Sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna Evrópusambandsins, sem nú er í mótun, er fyrst og fremst "svar við brýnni þörf" þar sem Atlantshafsbandalagið getur ekki verið "vörður Evrópu". Hún er þáttur í viðbrögðum Evrópumanna við hættum nútímans, eins og þær hafa þróast eftir lok kalda stríðsins og í kjölfar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin. Þetta kom fram í erindi sem Frederic Baleine du Laurens, sérfræðingur um öryggismál í franska utanríkisráðuneytinu, hélt í Háskóla Íslands, í boði Háskólarektors og franska sendiráðsins. "NATO getur ekki haft stjórn á eða verið vörður Evrópu," sagði Baleine du Laurens í erindinu. Það væri grundvallaratriði að Evrópusambandið geti tekið sjálfstæðar og óháðar ákvarðanir í öryggis- og varnarmálum sínum. Hins vegar væru samskipti og samstarf beggja stofnana mikilvæg, sem og pólitískt samráð við bandamanninn máttuga vestanhafs. Það væri hins vegar ekki nóg að það samráð færi fram á vettvangi NATO; það yrði að vera víðtækara en svo.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×