Innlent

Starfsendurhæfing í forgang

"Já, ég tel þetta mjög áríðandi mál og til mikils að vinna," sagði Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra , spurður um hvort uppbygging starfsendurhæfingar væri eitt af forgangsmálum hjá stjórnvöldum nú. Fréttablaðið hefur greint frá niðurstöðum óbirtrar skýrslu ráðherraskipaðs starfshóps um stöðu og þörf á endurbótum í starfsendurhæfingu. Í hópnum sátu meðal annarra fulltrúar Tryggingastofnunar, lífeyrissjóðanna, Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambands Íslands, Vinnumálastofnunar og félagsmálaráðuneytis. Niðurstaðan var sú að stórátak þyrfti í málaflokknum til að ná viðunandi árangri. Þetta er angi af umræðu um stórfjölgun öryrkja á síðari árum, en endurhæfing er veigamikill þáttur til að koma fólki aftur út í atvinnulífið. "Við viljum efna til víðtæka samstarfs um þetta verkefni," sagði ráðherra, sem kvað marga hafa sýnt áhuga á því. "Við erum að athuga hvort skynsamlegt sé að setja upp miðstöð starfsendurhæfingar. Þá er þetta spurning um fjármuni. Nú er verið að vinna að fjárlagagerð fyrir næsta ár og þetta er eitt af þeim málum sem við leggjum áherslu á."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×