Erlent

Þáðu mútur frá Saddam?

Tveir fyrrverandi aðstoðarmenn Pútíns Rússlandsforseta og þjóðernisöfgamaðurinn Zhirinovsky eru sakaðir um að hafa þegið mútur frá Saddam Hussein. Í staðinn áttu þeir að tala máli Íraksstjórnar, bæði í Moskvu og á alþjóðavettvangi. Þetta eru nýjustu upplýsingar úr skýrslu sem bandarísk þingnefnd er að taka saman um spillinguna sem þreifst í tengslum við olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna í Írak. Nefndin byggir þessar ásakanir á upplýsingum frá fyrrverandi samstarfsmönnum Saddams í Írak, aðallega tveimur mönnum; Ramadan, fyrrverandi varaforseta landsins, og Tariq Aziz sem var utanríkisráðherra og aðstoðarforseti Saddams. Það leikur enginn vafi á því að olíusöluáætlunin var hriplek og olíu var smyglað í stórum stíl fram hjá viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna. Spurningin er bara hverjir bera á þessu ábyrgð og hvernig verða þeir látnir sæta þeirri ábyrgð. Innanhúsrannsókn fer fram hjá Sameinuðu þjóðunum og er búist við skýrslu í sumar. Bandaríska þingnefndin sem einnig kannar þetta mál hefur þegar valdið nokkru fjaðrafoki því í síðustu viku voru sömu sakir og nú eru bornar á rússnesku stjórnmálamennina bornar á Charles Pasqua, fyrrverandi innanríkisráðherra Frakka, og breska þingmanninn George Galloway. Pasqua sagðist í dag vera fórnarlamb ófrægingarherferðar bandarískra þingmanna á hendur frönskum stjórnvöldum og Frakklandi almennt. Galloway hefur líka harðneitað þessum sökum og mun á morgun sitja fyrir svörum hjá þingnefndinni í Washington.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×