Erlent

Las þingmönnum pistilinn

Breski þingmaðurinn George Galloway las bandarískum þingmönnum pistilinn í harðorðri gagnsókn í dag þegar hann var kallaður til vitnis vegna ásakana um að hafa makað krókinn á vafasömum olíuviðskiptum við Saddam Hussein. Galloway var ásamt öðrum, þar á meðal fyrrverandi innanríkisráðherra Frakklands og rússneska þjóðernisöfgasinnanum Zhirinovsky, sakaður um óheiðarleg viðskipti með olíu í nýrri skýrslu bandarískrar þingnefndar sem rannsakar spillingu í tengslum við olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna. Hann harðneitar þessu; segist aldrei hafa séð olíufat, átt það, keypt það eða selt, og ekki heldur neinn á hans vegum. Galloway, sem hefur verið hatrammur andstæðingur Íraksstríðsins, lá ekki á skoðun sinni og benti á villur í skýrslunni, meðal annars þá að hann hefði ekki hitt Saddam Hussein mörgum sinnum, heldur aðeins tvisvar, eða jafn oft og Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Munurinn væri sá að Rumsfeld hafi hitt hann til að selja honum byssur og afhenda honum landakort til að auðveldara væri að miða byssunum. „Ég hitti hann til að reyna að binda enda á refsiaðgerðir, þjáningar og stríð,“ sagði Galloway. „Í seinna tilfellinu hitti ég hann til að reyna að fá hann til að hleypa dr. Hans Blix og vopnaleitarmönnum Sameinuðu þjóðanna aftur inn í landið (Írak). Þetta var öllu betri notkun á tveimur fundum með Saddam Hussein en hjá varnarmálaráðherranum ykkar,“ sagði Galloway beittum rómi. Yfirheyrslan var á köflum ansi áköf þó bæði Galloway og bandarísku þingmennirnir héldu ró sinni að mestu. Galloway sagði þetta móður allra blekkinga. „Þið reynið að draga athyglina frá þeim glæpum sem þið studduð, frá þjófnaði milljarða dala af auði Íraka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×