Sport

Heiðar tæpur vegna veikinda

 Ísland mætir Möltu í kvöld í undankeppni HM. Heiðar Helguson gat ekki tekið þátt í leiknum gegn Ungverjalandi sökum leikbanns og óvissa er með þátttöku hans í leiknum í kvöld vegna veikinda.  Íslenska landsliðið æfði í gær fyrir leikinn gegn Möltu sem verður á Laugardalsvelli í kvöld. Þegar um 10 mínútur voru liðnar af æfingunni þurfti Heiðar Helguson að hætta þar sem hann var slappur og sagði Logi Ólafsson, annar landsliðsþjálfaranna, við Fréttablaðið um kvöldmatarleytið í gær að ólíklegt væri að hann yrði alveg tilbúinn í leikinn þó að erfitt væri að meta það á þessari stundu. Metið verður í samráði við lækni hvað gert verður. Ný varnarlína Ljóst er að það verður alveg ný varnarlína í leiknum gegn Möltu í kvöld frá því gegn Ungverjalandi vegna meiðsla og leikbanna. Logi segist aldrei hafa lent í því á sínum þjálfaraferli að neyðast til að skipta um heila vörn. „Hvorki ég né Ásgeir höfum lent í einhverju líkt þessu, í leiknum á laugardag fór stór hluti fyrri hálfleiks í að gera að meiðslum manna. Þetta var ótrúleg upplifun en við reynum að taka það jákvæða úr leiknum með okkur í leikinn gegn Möltu. Það er margt jákvætt í okkar leik, góð stemmning og góður vinnuandi í hópnum. Þetta er enn fyrir hendi þrátt fyrir áföllin," sagði Logi. Þegar Ísland og Malta mættust í fyrri leiknum voru Möltumenn með tvo menn fyrir aftan fjögurra manna línu, þrjá þar fyrir framan og einn fremstan.  „Þeir léku aftarlega gegn okkur í fyrri leiknum og við reiknum með að þeir geri það sama nú. Við þurfum að koma af hörku í leikinn og vera með mikla pressu á boltann eins og gerðist gegn Ungverjum. Einnig þurfum við að nýta vel breidd vallarins." Óhjákvæmilega verða talsverðar breytingar á liði Íslands í kvöld, bæði aftarlega og framarlega að sögn Loga. Bjarni Ólafur Eiríksson, leikmaður Vals, var kallaður inn í landsliðið fyrir leikinn en það er í fyrsta sinn sem hann er valinn. „Bjarni hefur staðið sig vel á æfingum og er framtíðarmaður. Við treystum ungu leikmönnunum fullkomlega til að fara út í þetta verkefni," sagði Logi Ólafsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×