Sport

Hann er lítill fjarsjóður

„Ég lít á það sem lítinn fjarsjóð að geta valið leikmann með þennan persónuleika og þessa hæfileika í mitt lið,“ sagði Carlos Alberto Perreira eftir leik Brasilíu gegn Grikklandi í álfukeppninni sem nú stendur yfir í Þýskalandi. Leikmaðurinn sem hann átti við var Robinho, nýjasta stjarnan í brasilískum fótbolta og sá hinn sami og hefur verið orðaður við flest stærstu lið heims á síðasta ári. Robinho var ótrúlegur í þessum fyrsta leik sínum á evrópskri grund og réðu Evrópumeistarar Grikkja ekkert við pilt í leiknum. Robinho skoraði eitt og lagði upp annað mark í öruggum 3-0 sigri en hefði á góðum degi getað skorað þrjú mörk til viðbótar. „Hann er ennþá mjög ungur og á enn eftir að læra margt. En hann er að nálgast þá bestu í heiminum,“ sagði Perreira ennfremur um hinn 21 árs gamla Robinho sem leikur með liði Santos í heimalandi sínu.  Það kom því ekki á óvart þegar fregnir bárust skömmu eftir leikinn um að Real Madrid hefði hækkað tilboð sitt í Robinho og hefur upphæðin í því sambandi verið nefnd um 15 milljónir punda. Juan Figer, umboðsmaður leikmannsins, segir rétt að Real hafi sýnt mikinn áhuga upp á síðkastið en að ekki hafi verið skrifað undir neina samninga. Sjálfur er Robinho hinn rólegasti og segir það alveg nóg að vera orðaður við lið á borð við Real Madrid. „Það gerir mig mjög stoltan og ég þakka guði fyrir að sýna mér þann heiður. En hann er líka sá eini sem veit hvar ég spila fótbolta í framtíðinni,“ segir Robinho sem kveðst munu gera það sem hentar fjölskyldu hans best. Eins og áður segir hafa mörg önnur lið borið víurnar í Robinho eins og til dæmis Chelsea, Barcelona, AC Milan og Inter. Adriano, framherji þess síðastnefnda, lék fyrir framan Robinho með Brasilíu í leiknum gegn Grikklandi og var það nóg til að sannfæra hann um að stjórnarmenn Inter ættu að gera allt til að fá hann til félagsins. „Ég hef talað við Robinho og hann vill fara til Evrópu. Auðvitað vill ég fá hann til Inter. Þetta er hæfileikaríkasti knattspyrnumaður í heimi.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×