Innlent

Hundrað milljóna fjárdráttur

Ákæra á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, varðar meðal annars tæplega hundrað milljóna króna fjárdrátt í tengslum við tilraun fyrirtækisins til að taka yfir verslanakeðjuna Arcadia fyrir fjórum árum. Frá þessu er greint í breska blaðinu Guardian í dag. Breskir fjölmiðlar hafa síðustu daga greint frá ákærum Ríkislögreglustjóra á hendur stjórnendum og endurskoðendum Baugs sem gefnar voru út síðastliðinn föstudag. Á vefútgáfu Guardian í dag segir að Jón Ásgeir, sem að undanförnu hafi reynt að ná yfirtöku á bresku matvörukeðjunni Somerfield, hafi verið birt ákæra sem meðal annars tengist tilraunum Baugs til að tryggja yfirtöku á Arcadia sem rekur verslanir eins og Top Shop og Miss Selfridges. Fram kemur að ákærurnar hafi ekki enn verið birtar opinberlega. Einnig segir að Jón Ásgeir neiti öllum áskökunum en Guardian segir hann hafa þegið lán sem stangaðist á við skattalög í tengslum við kaup Baugs á íslensku verslanakeðjunni 10-11 árið 1999. Breska blaðið heldur því fram að ákærunar á hendur stjóenendum Baugs hafi komið hugsanlegri yfirtöku fyrirtækisins á Somerfield í uppnám en viðræður Baugs og hóps annarra félaga vegna kaupanna héldu áfram í gær, að sögn blaðsins. Viðræður eru langt komnar á yfirtökutilboði í bresku verslanakeðjuna sem er sú fimmta stærsta á breskum matvörumarkaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×