Innlent

Sprungur á Norðlingaholti

Ein af stóru jarðskjálftasprungunum, sem ganga í gegnum Rauðavatn og Norðlingaholt, er nú vel sýnileg. Hún er það breið að nær væri að kalla gjá. Lægðin í landslaginu upp af Rauðavatni norðaustanverðu er í raun ein sprungan. Hún liggur síðan undir Suðurlandsveginn og áfram í gegnum nýbyggingasvæðið á Norðlingaholti. Við götuna Norðlingavað er búið að grafa stóran skurð þvert á sprunguna og má þar nú sjá móta fyrir misgenginu. Athyglisvert er að sjá hversu breitt misgengið er en þarna virðast vera um átta metrar á milli klapparveggja. Þetta er ein af nokkrum sprungum sem liggja í gegnum nýbyggingarsvæðið á Norðlingaholti. Þegar svæðið var skipulagt voru hús upphaflega teiknuð ofan á sumum sprungunum og hefur síðan þurft að færa nokkur þeirra til á teikningunni. Sprungurnar eru ekki alveg lausar við mannvirki því til að nýta landið sem best hafa holræsaskurðir verið lagðir eftir þeim auk þess sem götur liggja yfir þeim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×